137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi breytingartillaga kallast á við breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu á fyrri stigum þar sem Alþingi var tryggð sú staða að þingið gæti gert frekari takmarkanir á ríkisábyrgðinni ef þessi atvik mundu koma upp í framtíðinni.

Ég verð að segja um þá breytingartillögu sem við greiðum nú atkvæði um að hún er ekki fullkomin. Jafnvel þó að maður væri efnislega sammála henni er orðalagið þannig að það er ekki hægt að fallast á hana. Til dæmis þar sem segir: „Fáist síðar úr því skorið fyrir þar til bærum úrlausnaraðila að ríkisábyrgð gildi ekki, …“ Að ríkisábyrgð gildi ekki? Við erum að setja ríkisábyrgð á bak við samningana. Álitaefnið snýst ekki um það hvort ríkisábyrgðin gildi ekki, lagalegi ágreiningurinn hefur snúist um skylduna til þess að veita ríkisábyrgð. Það hefði því átt að orða þetta þannig að íslenska ríkinu bæri ekki skylda (Forseti hringir.) til að veita ríkisábyrgð en ekki um gildi ríkisábyrgðarinnar sem slíkrar. Ég tel að búið sé að girða fyrir þær hættur sem þessi breytingartillaga er sett fram til að mæta.