137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum, eins og fram hefur komið, að greiða atkvæði um eitthvert stærsta mál sem komið hefur fyrir Alþingi væntanlega fyrr og síðar varðandi skuldbindingar upp á tugi eða hundruð milljarða af íslenskri þjóð til framtíðar. Það skiptir öllu máli að við séum alveg klár á því hvað við erum að samþykkja. Ég fæ ekki séð að alþingismenn séu yfirleitt alveg klárir á því hvað þeir takast á hendur með þessum samningum. Hér þarf að skýra málið betur.

Eigum við yfirleitt að borga? Það er stór spurning. Við höfum ekki fengið því svarað. Að mínu viti er verið að kúga íslenska þjóð af öðrum þjóðum til að taka á sig skuldbindingar sem henni ber ekki að taka á sig. Hversu mikið munum við borga? Við vitum það ekki heldur. Þessir samningar eða lagafrumvarp, sem verður væntanlega samþykkt, þarfnast miklu meiri umfjöllunar og yfirferðar og það lýsir sér best í því, svo ótrúlegt sem það er, að enginn sérfræðingur í breskum lögum hefur lesið þetta fyrir Íslands hönd. Ég segi nei.