137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Fyrirvararnir eru vissulega til bóta vegna þess að þeir rýra vonandi að einhverju leyti gildi samningsins. Ég taldi að þegar lagt var af stað í þessa fyrirvaravinnu væri það fyrst og fremst til að sýna fram á að samningarnir væru óásættanlegir en ekki til að gera samningana ásættanlega fyrir Breta og Hollendinga. Þess vegna finnst mér umræðan um þetta allt saman búin að vera mjög undarleg og enn á ný í dag hefur komið í ljós að þeir sem að þessu standa skilja þetta allt hver á sinn hátt. Það er algerlega óljóst hvernig þetta verður allt saman, hvort verður ofan á á endanum samningurinn, sem enn fleiri virðast nú halda fram að eigi að halda gildi sínu, eða fyrirvararnir, sem augljóslega eru ekki samræmanlegir samningnum. Þetta nær náttúrlega ekki nokkurri átt og er, frú forseti, orðið eitt allsherjarrugl. Það er algerlega óásættanlegt að við þessar aðstæður þar sem þessi óvissa ríkir og málið er unnið með þessum hætti, að ekki skuli einu sinni fengnir nægilega fróðir sérfræðingar til að fara yfir málið. Það verður algerlega óásættanlegt að þingið afgreiði þetta mál og samþykki. Ég segi nei, nei, nei.