137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[11:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það hefur verið skoðað undanfarna daga hvort þetta mál þurfi nauðsynlega að hljóta afgreiðslu hér og nú. Það er langt liðið á sumar og styttist í að þing komi saman að nýju þar sem venju samkvæmt verður lagt fram fjáraukalagafrumvarp og leiðréttar lántökuheimildir eða aflað þeirra heimilda sem talið er þurfa innan ársins. Sú skoðun leiðir í ljós að ekki er nauðsynlegt að afgreiða þetta mál nú vegna þess hvernig áform um lántökur hafa þróast. Þá mun ekki reyna á það a.m.k. fyrr en fyrri hluta vetrar að fullnýta þær heimildir sem ætlunin var að afla með þessu frumvarpi. Sömuleiðis hefur verið kannað að Landsvirkjun sér ekki fram á að hún þurfi á þeim heimildum að halda nú í septembermánuði a.m.k. sem henni voru ætlaðar í þessu frumvarpi. Niðurstaða af þeirri skoðun er því að taka megi þetta mál af dagskrá en ekki er hægt að útiloka að í staðinn verði að afgreiða heimildir með skjótum hætti í upphafi þings í októbermánuði.