137. löggjafarþing — 60. fundur,  28. ág. 2009.

fundarstjórn.

[11:38]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Í gær barst mér svar frá fjármálaráðherra um gengistryggðar og verðtryggðar eignir og skuldir bankanna. Fyrirspurnin var í fjórum liðum og í svarinu er mér einfaldlega neitað um svör. Það er vísað til þess að réttur minn sem alþingismaður takmarkist við opinber málefni. Ég mótmæli því harðlega að þetta eigi við allar þær fjórar spurningar sem ég bar upp í þessari fyrirspurn til ráðherra og fullyrði raunar að hægt hefði verið að svara öllum þessum spurningum efnislega án þess að koma inn á einkarétt eða viðskiptalegar upplýsingar eins og vísað er til í svarinu.

Ég tel mjög mikilvægt að fá að heyra frá ráðherra hvernig hann hyggst koma í veg fyrir ákveðinn hagsmunaárekstur sem getur komið upp hjá ríkinu gagnvart þessum tveimur þáttum sem ég er að spyrja sérstaklega um, gjaldeyrisjöfnuð og verðtryggingajöfnuð, og til hvaða aðgerða ráðherrann hyggst grípa til að koma í veg fyrir að ríkið geti hagnast óeðlilega af aðstæðum sem núna eru á fjármálamarkaði. Því hyggst ég senda formlegt bréf til ráðherra og reyna að krefja hann svara við þessum spurningum sem ég hef (Forseti hringir.) og fer fram á það eða beini þeim tilmælum til ráðherra hér og nú að hann svari spurningum mínum eftir bestu getu og samkvæmt lögum.