137. löggjafarþing — 60. fundur,  28. ág. 2009.

fundarstjórn.

[11:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur nokkuð til síns máls í því að hvað varðar 2. og 4. tölulið spurningarinnar hefði verið rétt að gera skýrari efnisleg svör en gert er í þessu svari. Enn varðandi 1. og 3. tölulið er það endurtekið efni og það er rækilega útskýrt í þessu svari og reyndar vitnað í svör við fyrri fyrirspurnum hvernig það mál er vaxið. Engu að síður er rétt að minna á að ríkið sem eigandi að fjármálafyrirtækjum ætlar að leggja á þau umtalsvert meiri kvaðir um upplýsingaskyldu en skylt væri að lögum og verður þeim í raun og veru gert að veita upplýsingar eins og um væri að ræða skráð fyrirtæki á markaði með ársfjórðungslegri upplýsingagjöf og árlegri skýrslugjöf.

En varðandi svör við töluliðum 2 og 4 get ég gefið þau munnlegu svör að það hafa ekki verið til skoðunar sérstakar aðgerðir enda er lítið um það, því miður, að ríkið sé að hagnast á efnahagsáföllunum sem hér hafa orðið. Svarið er í raun og veru nei, (Forseti hringir.) það hafa ekki verið í skoðun sérstakar aðgerðir vegna þess að ríkið sé að hagnast sérstaklega á núverandi aðstæðum í íslensku efnahagslífi.