137. löggjafarþing — 60. fundur,  28. ág. 2009.

fundarstjórn.

[11:41]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég get sannarlega tekið undir það sem ráðherrann sagði að það er mjög skýrt varðandi spurningar 2 og 4 að þær varði ekki einkaréttarlegar upplýsingar heldur stefnumörkun ráðherrans sjálfs og þess vegna hvet ég hann til þess, að ef hann hefur ekki þegar gert það eins og kom fram í svari hans, að hann fari að skoða hvernig hægt sé að koma í veg fyrir þessa hagsmunaárekstra.

Ég tel líka að hinar spurningarnar, í lið 1 og 3, varði opinber málefni. Þess vegna fer ég fram á það að fá svar við þeim spurningum líka og þætti mér gott að fá þær skriflega og sem svar við því bréfi sem ég mun senda. Þó að það sé ekki staðan núna liggur a.m.k. fyrir að ríkið mun verða mjög stór aðili á bankamarkaði og fjármálamarkaði um ókominn tíma, við höfum ekki séð nein tímamörk hvað það varðar. Það skiptir miklu máli að gætt sé að hagsmunum almennings, ekki bara hagsmunum bankanna í þeim aðgerðum sem ríkisvaldið grípur til.