137. löggjafarþing — 60. fundur,  28. ág. 2009.

fundarstjórn.

[11:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ljúft og skylt að reyna að svara hv. þingmanni, eins og auðvitað þingmönnum öllum, um öll þau mál sem spurt er um eftir því sem hægt er. Það skal ekki standa á mér að reyna að eiga orðastað við hv. þingmann og svara fyrirspurnum eða ræða þetta mál strax og þing kemur saman á nýjan leik.

Varðandi spurningar 1 og 3 þá er það einfaldlega þannig að það er löggjafans sjálfs, ef hann vill búa um þessa hluti með öðrum hætti en gert er að lögum í því skyni að viðskiptalegar upplýsingar úr bankakerfinu séu opnari og aðgengilegri, þá er það mál sem snýr ekki að framkvæmdarvaldinu heldur löggjafanum í raun og veru. Það er ekki hægt að krefja ráðherra um svör við spurningum sem þeim er óheimilt að veita og þegar sá sem í hlut á og yrði að reiða fram upplýsingarnar, þ.e. viðkomandi fjármálastofnun, telur sig ekki geta það og ekki vera það heimilt hlýtur það eðli málsins samkvæmt að koma aftur til kasta löggjafans að svara þeirri spurningu: Vilja menn gera breytingu á lögum? Vilja menn ganga frá þessu með einhverjum öðrum hætti? Ég mundi þá kannski senda fyrirspurn til Alþingis um það mál.