138. löggjafarþing — 2. fundur,  5. okt. 2009.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Það hefur runnið upp fyrir landsmönnum undanfarna daga og vikur að það er ekki einungis efnahagskreppa á Íslandi. Hér ríkir einnig stjórnarkreppa. Þótt ríkisstjórn sé við völd í landinu að forminu til er sundrungin, samstöðuleysið og óeiningin á stjórnarheimilinu slík að ríkisstjórnin er ekki starfhæf. Og þótt forsætisráðherra Íslands neiti að horfast í augu við þessi innanmein ríkisstjórnarinnar fara þau ekki fram hjá fólkinu í landinu.

Hér talaði forsætisráðherra eins og hún hefði aldrei haft með landsmálin að gera fyrr en nú rétt nýlega. Staðreyndin er að Samfylkingin hefur nú setið í þremur ríkisstjórnum frá árinu 2007. Um þessar mundir er ár liðið frá því að bankarnir féllu en staða heimilanna og fyrirtækjanna hefur bara versnað.

Frú forseti. Góðir landsmenn. Ég stend ekki hér upp til að halda því fram að til séu auðveldar leiðir út úr þeirri stöðu sem uppi er. Allir vita að það þarf að taka erfiðar ákvarðanir til að loka fjárlagagatinu og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs. Allir skilja að lífskjörin munu versna tímabundið og allir sjá að engar töfralausnir munu koma okkur til bjargar. En landsmenn vita líka, sjá og skilja að á umbrotatímum eins og þeim sem íslenska þjóðin gengur nú í gegnum skiptir sköpum að við stjórn í landinu sé traust ríkisstjórn með skýra, trúverðuga stefnu um það hvernig leiða skuli þjóðina út úr þeim vanda sem við henni blasir. Í þess stað höfum við ríkisstjórn hverrar líf hangir á bláþræði, það sýna atburðir síðustu daga og vikna.

Um helgina var upplýst að Katrín Júlíusdóttur, hæstv. iðnaðarráðherra sem fer með orkumál í ríkisstjórninni, hefði komið af fjöllum þegar kynntur var nýr 16 milljarða orku- og auðlindaskattur. Ríkisstjórnin ætlar að ráðast í stórkostlega skattlagningu á orkufyrirtækin í landinu og orkumálaráðherrann hefur ekki hugmynd um þau áform. Og hver eru þessi áform þegar betur er að gáð? Álfyrirtækin í landinu borga hverjum starfsmanni u.þ.b. 5 milljónir að meðaltali í árslaun. Ríkisstjórnin ætlar að skattleggja þessi sömu fyrirtæki sem nemur um 10 milljónum á hvern starfsmann. Hverjum dettur svona lagað í hug?

Ríkisstjórnin hefur nú þegar stórskaðað íslenska hagsmuni með því að leggja fram þetta frumvarp og með því að greiða ekki fyrir áformum um orkufrekan iðnað eins og reyndar var gert ráð fyrir í stöðugleikasáttmálanum. Erlendir fjárfestar hafa engan áhuga á því glundroðaumhverfi sem þessi ríkisstjórn býður upp á.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði af sér ráðherraembætti og yfirgaf ríkisstjórnina eftir að hafa verið stillt upp við vegg, eins og hann orðaði það sjálfur. Þar fór fyrir borð sá ráðherrann sem var í bestum tengslum við þjóðina í Icesave-málinu. Síðan kom í ljós að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sjálfur þingflokksformaður Vinstri grænna, neitaði að taka sæti í ríkisstjórninni í stað Ögmundar af sömu ástæðu — óánægju með ríkisstjórnina. Hún sagði að allir ráðherrar í ríkisstjórninni að Ögmundi frátöldum hefðu samþykkt Icesave-samninginn óséðan. Þetta er grímulaus árás á forsætis- og fjármálaráðherra þjóðarinnar.

Samkvæmt fréttum í kvöld er ljóst að hvorki hv. þm. Ögmundur Jónasson né hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir treystu sér til að verja stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim umræðum sem hér fara nú fram. Góðir Íslendingar, þetta er ástandið í ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar.

Við þær aðstæður sem nú eru uppi á Íslandi getur stjórnarandstaðan á Alþingi ekki leyft sér þann munað að leggja allt sitt púður í neikvæða gagnrýni. Það er borgaraleg skylda allra í samfélaginu, innan þings sem utan, að leggja sitt af mörkum til þess að leiða þjóðina út úr þessu kreppuástandi. Við höfum stutt þau mál sem við teljum til framfara en varið hagsmuni fólksins og fyrirtækjanna í landinu þegar ríkisstjórnin hefur brugðist. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem kom í veg fyrir stórslys fyrir íslensku þjóðina þegar Alþingi samþykkti stranga fyrirvara við Icesave-samkomulagið þvert gegn vilja ríkisstjórnarinnar. Án aðkomu Sjálfstæðisflokksins og annarra stjórnarandstöðuflokka hefði Alþingi afgreitt ríkisábyrgðina án fyrirvara. Það er öllum ljóst. (Gripið fram í.)

Í sumar lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram tillögur í efnahagsmálum hér á Alþingi en í þeim birtist framtíðarsýn fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu, ekki síst litlu fyrirtækin og þau meðalstóru sem gjarnan verða út undan í umræðunni um atvinnulífið. Á ákveðnum sviðum töldum við þörf á þverpólitísku samstarfi eins og t.d. vegna skuldavanda heimilanna. En ríkisstjórnin hlustaði ekki á þessar tillögur, hún greip ekki til þverpólitísks samráðs um eitt einasta mál sem á hennar borði var en betur hefði farið á því, því að með tillögum Sjálfstæðisflokksins, ef farið hefði verið að þeim, væru efnahagsmál þjóðarinnar ekki í því mikla óefni sem þau eru nú.

Þrátt fyrir þetta mun Sjálfstæðisflokkurinn ekki leggja árar í bát. Við munum halda áfram og á næstu dögum mun Sjálfstæðisflokkurinn leggja fram vandaða efnahagsáætlun að nýju þar sem fram koma markvissar tillögur sem munu leiða Ísland út úr kreppunni, nái þær fram að ganga. Þessum tillögum teflir Sjálfstæðisflokkurinn fram sem metnaðarfullum valkosti á móti metnaðarlausum kreppu- og skattahækkunarfjárlögum ríkisstjórnarinnar. Þær umfangsmiklu skattahækkanir sem ríkisstjórnin boðar í fjárlagafrumvarpi sínu eru ekkert annað en gróf aðför að heimilunum og fyrirtækjunum í landinu. Fjármálaráðherra hefur neitað að útskýra hversu mikið skattar eigi að hækka, en þegar forsendur fjárlagafrumvarpsins eru skoðaðar má sjá að ríkisstjórnin ætlar sér að ráðast í mestu skattahækkanir Íslandssögunnar og gegn þeim mun Sjálfstæðisflokkurinn berjast. Tillögur okkar sjálfstæðismanna munu koma sér vel fyrir fólkið og fyrirtækin í landinu, okkar leið mun bæta afkomu ríkissjóðs um allt að 80 milljarða strax á næsta ári.

Góðir landsmenn. Þetta þarf ekki að vera flókið. Við vinnum okkur aldrei út úr kreppunni öðruvísi en að framleiða verðmæti og skapa með því störf. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í 80 ár sagt að stærsta hagsmunamálið fyrir heimilin í landinu væri verðmætasköpun og næg atvinna, og ég held að sjaldan hafi verið jafnmikilvægt og nú að hafa þessar augljósu staðreyndir í huga.

Í stuttu máli fela efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins eftirfarandi í sér:

Við viljum ryðja úr vegi hindrunum fyrir nýfjárfestingar í orkufrekum iðnaði og skapa með því þúsundir nýrra starfa jafnvel strax á næsta ári. Sjálfstæðisflokkurinn hafnar því að skattleggja þjóðina út úr kreppunni. Skattlagningarleiðin mun einungis dýpka kreppuna og gera ástandið óbærilegt. Við höfum því bent á aðrar leiðir til að auka tekjur ríkisins.

Fyrst og fremst þarf að koma súrefni til atvinnulífsins í landinu en auk þess leggur Sjálfstæðisflokkurinn til að við skoðum til hlítar kosti þess og galla að breyta skattlagningu lífeyrisgreiðslna. Hér kemur fleira en eitt til greina sem ræða þarf við aðila vinnumarkaðarins, þar á meðal að skoða tímabundna skattlagningu á inngreiðslum. Við höfum lagt til sparnað í ríkisrekstrinum þannig að velferðarmálum verði hlíft eins og hægt er. Flatur niðurskurður, eins og hann er kynntur af ríkisstjórninni og við sjáum hvaða afleiðingar hefur til að mynda á Landspítalanum þessa dagana, er stórhættulegur. Við viljum hámarkshagræðingu til að viðhalda þjónustustiginu. Það þarf að leita allra leiða til að hagræða áður en menn fara að skera niður með þeim hætti sem boðað er í fjárlagafrumvarpinu. Við sögðum strax í sumar í efnahagstillögunum sem þá voru lagðar fram að það þyrfti að koma til almenn lækkun greiðslubyrði húsnæðislána. Ríkisstjórnin er fyrst nú að átta sig á þessu, allt of seint og virðist ætla að gera of lítið.

Við sjálfstæðismenn teljum raunhæft að afnema gjaldeyrishöftin strax og lækka stýrivexti myndarlega og jöklabréfavandann er vel hægt að leysa. Tillögur komu fram í Seðlabankanum strax á síðasta ári. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafnaði þeim tillögum og lagt var upp með haftastefnu sem virðist ekki ganga upp. Þess vegna vill Sjálfstæðisflokkurinn endurskoða þá áætlun sem stjórnvöld gerðu með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hún hefur engu skilað.

Um hvað snerist þessi áætlun? Er það ekki rétt munað hjá mér að aðkoma okkar að þessu „prógrammi“ hafi snúist um það að við ættum að fá lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? En við fáum engin lán, sjóðurinn hafnar því að veita lán og hann vísar að því er virðist, á bak við tjöldin, í Icesave-deiluna.

Um þetta viðhorf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði núv. hæstv. fjármálaráðherra í október í fyrra, með leyfi forseta:

„Ég hef heyrt þann orðróm að þarna séu tengsl á milli og ef það er svo að þetta sé fyrirframskilyrði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að koma hér að málum, að við gerum upp öll þessi ósköp í Bretlandi og Hollandi án þess að það liggi endilega fyrir að okkur sé lagalega og þjóðréttarlega skylt að gera það, þá er það auðvitað ekkert annað en fjárkúgun. Þá eru allar okkar verstu martraðir að rætast hvað varðar aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“

Þetta sagði núv. hæstv. fjármálaráðherra fyrir ári síðan. Ég spyr: Er Steingrímur J. Sigfússon ekki staddur í miðri martröðinni án þess að átta sig á því? Eða hefur hann kannski skipt um skoðun?

Góðir landsmenn. Þegar ný ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar tók við í febrúar á þessu ári var sagt að nú tæki við traust og ábyrg verkstjórn í Stjórnarráðinu. Nú sjá allir að verkstjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur er í molum. Þegar svo er komið blasir við að ríkisstjórnin er ekki starfhæf. Innan hennar er hver höndin upp á móti annarri, hún veit ekkert í hvorn fótinn hún á að stíga. Ráðherrarnir vorkenna sjálfum sér og verkefnin eru þeim ofviða. Þess vegna segi ég: Það er stjórnarkreppa í landinu. Ríkisstjórnin hefur glatað trausti fólksins í landinu. Hún veldur nú stórkostlegu tjóni fyrir þjóðarbúið. Þessi ríkisstjórn er ekki starfi sínu vaxin. Fólkið í landinu á annað og betra skilið en ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.