138. löggjafarþing — 2. fundur,  5. okt. 2009.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra flutti á ársafmæli efnahagshrunsins ræðu sem hefði allt eins getað verið flutt fyrir ári síðan. Það hefur ekkert gerst af því sem rakið var í ræðunni af því sem þyrfti bráðnauðsynlega að gerast sem allra fyrst.

Frú forseti. Nú er stöðnunin orðin slík að klukkan gengur ekki lengur. Ég ætla að biðja frú forseta að hringja bjöllunni þegar ég á tvær mínútur eftir, það ætti ekki að vefjast fyrir frú forseta.

Þegar menn standa frammi fyrir slíkum vanda, vanda eins og íslenska þjóðin stendur frammi fyrir nú, er mikilvægt að flækja ekki stöðuna um of heldur gera sér grein fyrir því hvar hinn raunverulegi vandi liggur, hvar kjarni vandans er. Þegar við gerum það í þeirri stöðu sem við erum nú sjáum við að kjarni vandans sem við stöndum frammi fyrir er ekki svo flókinn. Kjarni vandans er sá að við erum í skuldakreppu. Ef við lítum fram hjá skuldunum, skuldum heimilanna, fyrirtækjanna, sveitarfélaganna og ríkisins er staðan býsna góð á Íslandi. Hér hafa verið byggðir upp á áratugum innviðir sem eru mjög sterkir og framleiða gríðarleg verðmæti upp á hvern einasta dag. Við erum á hverjum einasta degi að flytja út miklu meira en við flytjum inn þannig að þegar við lítum á Ísland sem eitt fyrirtæki í eigu þessara rúmlega 300 þúsund Íslendinga þá gengur það fyrirtæki býsna vel ef litið er fram hjá skuldunum, afborgunum af þeim og umfram allt vöxtunum.

Hvernig er brugðist við þessum vanda af hálfu ríkisstjórnarinnar? Í fyrsta lagi með aðgerðaleysi en einnig með því að reyna að auka enn á skuldirnar. Það mun ekki leiða til farsællar niðurstöðu. Hæstv. forsætisráðherra viðurkennir reyndar sjálf núna að okkur beri kannski ekki að greiða Icesave, það sé ekki réttlátt, en samt ætlar forsætisráðherra að neyða þjóð sína til að greiða Icesave-skuldaklafann. Hún viðurkennir að það sé ósanngjarnt en samt eigum við að greiða hann sem þátt í einhvers konar alþjóðlegri vinsældakeppni, keppni sem enginn er að fylgjast með nema félagar Samfylkingarinnar, sósíaldemókratar í Hollandi og í Bretlandi og svo hefur sósíaldemókrötum í Noregi verið blandað í þetta leikrit. Allt gengur þetta út á að beygja okkur í duftið, láta ganga á okkur til þess að öðlast virðingu. Rökleysan er sú að til að vera þjóð á meðal þjóða þurfum við að láta erlent vald vaða yfir okkur.

Þegar öllu er á botninn hvolft eru raunverulegir plúsar og mínusar í hagkerfinu það sem skiptir máli. Menn eiga viðskipti við lönd sem framleiða raunveruleg verðmæti og eru efnahagslega sjálfstæð, ekki við þá sem sýna fram á mesta undirgefni í alþjóðlegu samfélagi sósíaldemókrata.

Til hvers eru þessi lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem eru nefnd sem ein helsta röksemdin fyrir því að við verðum að láta undan, gera það sem við vitum að er raunverulega ekki rétt? Þau eru til að styrkja gengi krónunnar með einhverjum illskiljanlegum hætti. Það hefur komið fram í máli hæstv. fjármálaráðherra og raunar hæstv. forsætisráðherra líka að ekki standi til að eyða þessum peningum, það eigi bara að eiga þá og borga af þeim vexti og með því muni gengi krónunnar væntanlega styrkjast þótt ýmsa renni í grun að nota eigi þessa peninga, eins og gert hefur verið áður undir handleiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, til að kaupa upp eigin gjaldmiðil. Hverjir hagnast á því? Það eru þeir sem sitja fastir, erlendir fjárfestar sem vilja fá íslensku krónunum sínum skipt á sem hagstæðustu gengi. Þetta er hluti af þeirri stefnu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur rekið í ríkjum um allan heim aftur og aftur og hefur aldrei, ekki í eitt einasta skipti, náð þeim árangri sem til var ætlast. Nú síðast í Argentínu 2001 og 2002 kom Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að með gríðarlegt fjármagn, skuldir sem lentu síðan á ríkinu, en peningarnir runnu allir út aftur, beint út úr landinu. Er að undra að menn hafi áhyggjur af því hvert stefni þegar ríkisstjórnin berst af gríðarlegri hörku fyrir því að taka lán til að borga af skuld sem við skuldum ekki, til að geta tekið enn þá meiri lán til að eyða í það að halda uppi gjaldmiðli sem ekki er hægt að halda uppi með lántökum, eins og svo fjölmargir hagfræðingar hafa bent á? Það er ekki hægt að verja gengi gjaldmiðils með lánsfé. Þessi ríkisstjórn gerir nefnilega allt öfugt við það sem ætti að gera við þær aðstæður sem við erum nú í. Icesave er eitt, vaxtastigið er annað og það er reyndar líka afleiðing af nálgun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem ríkisstjórnin reynir að fylgja í einu og öllu. Vaxtastigið hefur ekki aðeins hamlandi áhrif fyrir atvinnulíf og heimili í landinu. Það hefur líka í för með sér gríðarlegan beinan kostnað því að ríkið er að borga vexti upp á tugi milljarða vegna þessa óeðlilega háa vaxtastigs, vexti sem ætti ekki að þurfa greiða við núverandi aðstæður.

Svo er það niðurskurðurinn, eyðileggjandi niðurskurður, niðurskurður án framtíðarsýnar þar sem ekkert er hugað að því hvort verið sé að slátra mjólkurkúnum, eyðileggja framtíðarverðmætin. Hverju á niðurskurðurinn á Landspítalanum þar sem þarf að segja upp hundruðum starfsmanna að skila? Hvernig á það að hjálpa ríkinu að byggja sig upp að setja allt þetta fólk á atvinnuleysisskrá? Allt er þetta vanhugsað og í raun öfugt við það sem ríkisstjórnin ætti að vera að gera. Svo eru það skattahækkanirnar, líklega það vanhugsaðasta af þessu öllu saman. Að hækka skatta á fjölskyldur og fyrirtæki sem sum hver skrimta og sum hver eru í miklum mínus og eiga í basli við hver mánaðamót. Það á að hækka þessa skatta og gera ráð fyrir að það skili gríðarlegum tekjum í ríkissjóð sem með einföldu reikningsdæmi. Bara með því að skoða hver afkoma heimila og fyrirtækja er nú þegar má sjá að mun ekki skila sér og er eingöngu til þess fallið að setja enn fleiri fyrirtæki í þrot, gera enn fleiri atvinnulausa og draga enn úr skatttekjum. En þegar bent er á þessa vankanta á nálgun ríkisstjórnarinnar er ekki brugðist við með málefnalegri umræðu. Nei, það er brugðist við með árásum, oft og tíðum persónulegum árásum á þá sem flytja fréttirnar. Og mestum hæðum náði það þegar samviska ríkisstjórnarinnar, Ögmundur Jónasson, var settur til hliðar fyrir það að benda á að kannski væri ekki allt rétt í nálgun stjórnarinnar og benda á það ofbeldi sem ríkisstjórnin hefur beitt frá því að hún tók við völdum. Hvernig er brugðist við því af hálfu þessarar ríkisstjórnar? Með ófrægingarherferð í garð þess ráðherra sem nú hefur verið vikið úr stjórninni. Nú síðast í kvöld vann fréttastofa sjónvarpsins fyrir nefskattinum, sem hún fær þó ekki allan, með því að segja fyrst í langri frétt frá því hvernig Ögmundur Jónasson og fylgdarsveinn hans væru að eyðileggja þessa ríkisstjórn og reyna að fella hana. Svo fylgdi i kjölfarið viðtal við einhvern erlendan prófessor sem einhver samfylkingarmaðurinn væntanlega hafði fundið (Gripið fram í.) og var tilbúinn að halda því fram að Icesave-samningarnir væru í rauninni býsna góðir og menn ættu að skrifa undir þá. Svona var fréttaflutningur kvöldsins og líklega engin tilviljun. En svona vinnur þessi ríkisstjórn, spuni og ofbeldi í stað rökréttrar umræðu. Þetta er ríkisstjórnin sem ætlaði að hafa samráð, ætlaði að breyta vinnubrögðum í íslenskri pólitík. Það fer lítið fyrir því. Það er ekki einu sinni samráð innan ríkisstjórnarinnar þegar kemur í ljós að einn ráðherrann, hæstv. iðnaðarráðherra, vissi ekki einu sinni af orkusköttunum sem búið var að setja inn í fjárlagafrumvarpið og hefði líklega að óbreyttu sett flest fyrirtæki sem þurfa að nota mikla orku í þrot. En þetta er staðan. Það er afleitt að staðan sé þessi við þær aðstæður sem samfélagið er í nú og það er afleitt að það skuli allt hafa gleymst sem rætt var í október um opna stjórnsýslu, samráð og að læra af reynslunni, eins og hæstv. menntamálaráðherra nefndi áðan. Það er endalaust sjónarspil en lítið er gert í því að kanna hvað fór raunverulega úrskeiðis.

Það má t.d. nefna að Kaupþing, sem er frægt fyrir að hafa farið mjög óvarlega í lánveitingum og lánað mjög mikið miðað við eigið fé, var í lok árs 2007 búið að lána fimmtánfaldar eignir sínar, fimmtánfalt eigið fé út á lán, að ég tel. Fimmtán stærstu bankarnir í Bandaríkjunum voru búnir að lána 23 sinnum eigið fé og eitthvað svipað í Bretlandi og eflaust í fleiri Evrópuríkjum. Íslendingar eiga að beita sér fyrir því að margumrætt alþjóðasamfélag læri af reynslu okkar og breyti því sem aflaga hefur farið í stað þess að reyna að taka skellinn fyrir alla aðra, verða að einhvers konar fórnarlömbum fyrir alheimskapítalismann svo að menn geti gleymt að laga það sem aflaga hefur farið.

Það er mikil kaldhæðni í því fólgin að þessi fyrsta vinstri stjórn Íslandssögunnar sé núna búin að leiða þjóðina undir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn með sína ægilegu, hægri sinnuðu frjálshyggjustefnu og sé um leið að reyna að bjarga Evrópusambandinu frá því að horfast í augu við þá galla sem eru í fjármálakerfi þess. Ég held að við ættum að gera eins og hæstv. menntamálaráðherra nefndi, að reyna að læra af sögunni því að einungis þannig getum við verið sátt við okkur þegar upp er staðið.