138. löggjafarþing — 2. fundur,  5. okt. 2009.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:18]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Kæra þjóð. Aldrei nokkurn tíma hefur ein ríkisstjórn Íslands tekið við eins flóknum verkefnum og þeim sem mættu okkur 1. febrúar sl. þegar minnihlutastjórnin tók við. Bankarnir hrundir, tekjur ríkissjóðs rýrnandi, sveitarfélögin að missa fótanna, tugþúsundir bjuggu þá strax við lakari kjör en um langt árabil, þúsundir höfðu tapað nær aleigunni í hruni hlutabréfanna, tíundi hver maður atvinnulaus, öll samskipti við umheiminn í uppnámi, heimilin í stórfelldri hættu. Minnihlutastjórnin sem tók við 1. febrúar komst þó svo vel frá verkum sínum að kjósendur breyttu henni í meirihlutastjórn með góðu gengi Samfylkingarinnar og stórfelldum kosningasigri Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Öll þessi saga er kunn og við stöndum enn í verkunum miðjum. Ég nefni tvö risaverkefni.

Fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár hefur litið dagsins ljós en það sýnir afleiðingar skelfilegrar hagstjórnar og annarlegra áherslna undanfarandi ára og jafnvel áratuga. Sársaukafullar aðgerðir sem koma til með að bitna á þjóðinni allri eru óumflýjanlegar en munu þó ekki ná að brúa bilið. Þótt gert sé ráð fyrir að bæta stöðu ríkissjóðs talsvert er hallinn samt gífurlegur og vaxtagreiðslur ársins 2010 hátt í 100 milljarðar kr.

Í annan stað er Icesave-skuldbindingum okkar enn ólokið. Ég vænti þess að við sendum öll góðar hugsanir af hlýjum hug til fjármálaráðherra sem gerir nú lokatilraun til að sjá fyrir endann á málinu enda er hagur þjóðarinnar í húfi. Þjóðin þarf lægra verðlag, lægri vexti og hagstæðara gengi. Það er ótrúlega skammt í land ef okkur tekst aðeins að ná sem fyrst fullri sátt við umheiminn um efnahagslegar forsendur okkar. Okkur kann að sýnast sitt hverju um þann umheim en engum blandast hugur um að sáttin er forsenda þess að við getum farið að byggja upp af öllu afli atvinnulíf og fjárhag heimilanna.

Þessi tvö erfiðu mál sem hér hafa verið nefnd hafa hvílt mikið á herðum fjármálaráðherrans, formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. En það ber og að þakka forsætisráðherra sem hefur gert allt sem í hennar valdi stendur til að stuðla að góðri sátt og samstöðu um afar flókin og erfið verkefni. Þessar fyrstu ríkisstjórnir sem VG hefur tekið þátt í hafa því ekki verið neitt léttaverk. Öllum er ljóst að við erum ekki að hreinsa til eftir eigin verk heldur annarra. Forustumenn Vinstri grænna á síðustu árum kepptust við að benda þjóðinni og stjórnvöldum á allan þann voða sem við blasti þegar á árinu 2007. Það væri fróðlegt þegar betra tóm gefst að telja saman óhróðursgreinarnar sem skrifaðar voru til þeirra félaga minna úr ólíklegustu áttum á þeim örlagaríku missirum sem liðu fram að hruninu mikla fyrir réttu ári.

En ástæðan til þess, góðir landsmenn, að við tökum þátt í þessum erfiðu verkefnum er sú að við teljum brýnt að þau séu unnin út frá þeim grunngildum sem við vinstri græn stöndum fyrir, að félagslegt réttlæti verði haft að leiðarljósi og verkin unnin í þágu umhverfis, kvenfrelsis og friðar. Samfylkingin er því rökréttur bandamaður enda er hér um að ræða samstarf sem margir hafa talið þjóðina þurfa svo áratugum skiptir. Það er mikilvægt að þessir flokkar standi saman einmitt nú þegar á reynir því að í erfiðleikunum sést til hvers fólk og flokkar duga. Það skiptir nefnilega máli einmitt núna að forgangsraða rétt, að þeir sem erfiðast og minnst eiga fái minni skerðingu en þeir sem mest hafa og eiga, í anda norræns velferðarsamfélags.

Það hefur verið fróðleg lífsreynsla fyrir mig að koma inn á Alþingi eftir nokkur ár í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar tókst okkur að þróa samstarfsaðferðir meiri hluta og minni hluta sem ég held að sé öllum til góðs. Við erum líka kosin hingað inn á þessa úrslitastofnun lýðræðisins til að láta gott af okkur leiða. Við erum ekki kosin hingað inn til að níða skóinn af þeim sem eru okkur ekki sammála, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu. Við sem erum ríkisstjórnarmegin berum ábyrgðina og hana verðum við að axla en stjórnarandstaðan á þýðingarmiklu hlutverki að gegna í samstarfi þings og þjóðar. Samstarf krefst þess að allir axli ábyrgð og þar má enginn skorast undan.

Góðir Íslendingar. Vonandi verður hið nýja þing til marks um það að við getum öll látið gott af okkur leiða, að við séum menningarþjóð. Vinstri græn eru flokkur sem hefur rutt brautir og sett mál á dagskrá. Vinstri græn eru flokkur sem hefur sagt til um þegar of langt var gengið, flokkur sem hefur varað við, flokkur sem hefur stundum verið á móti öllu, eins og sagt var, flokkurinn sem gerði athugasemdir, flokkurinn sem efaðist, og svo er komið að okkur með sterkt umboð frá sögulegum kosningum með samstarfsfólki okkar í Samfylkingunni. Með bjartsýnu og eljusömu fólki sem vill líka jöfnuð, fólki sem við eigum samleið með í svo mörgu, firnamörgu í umhverfismálum — það hef ég skynjað að undanförnu eftir nýlegan úrskurð minn varðandi suðvesturlínu — mörgu í kvenfrelsismálum og í grundvallarhugsjónum um jöfnuð og félagslegt réttlæti. Þessi sjónarmið eru okkar leiðarljós núna þegar við verðum að ná flugi og langar að stíga inn í framtíðina með þjóðinni í trú á kjark og bjartar vonir, gagnsæi og opið samfélag.

Markaðshyggjan er ekki svarið. Hún er ekki svarið við hverjum vanda. Hún dregur ekki úr misrétti kynjanna, enn síður mansalinu sem byggist á markaðshyggjunni í sinni svörtustu mynd, þeirri hugmynd að allt sé til sölu. Markaðshyggjan leysir heldur ekki hin stóru umhverfismál, til að mynda loftslagsmálin. Markaðshyggjan leysir heldur ekki misréttið milli ríkra landa og fátækra. Mörg viðamestu og flóknustu verkefni aldarinnar verða aðeins leyst með samningum, samstöðu og sjálfbærni að leiðarljósi. Ofstækisfull markaðshyggjan kom okkur í vanda, þann vanda sem við okkur blasir nú. Það er nauðsynlegt veganesti inn í öldina að koma böndum á markaðshyggjuna og viðurkenna hversu takmörkuð hún er.

Vinstri græn standa á gömlum merg þar sem eru baráttumál þeirra sem höfðu ekkert að bjóða, ekkert að selja nema vinnuaflið, vinnu sína og tíma, fólk sem barðist á 20. öldinni fyrir réttindum verkafólks og vann sigra í gegnum öldina með samstöðu og baráttuþreki, úthaldi og trú á betri tíð. Baráttumál og jafnréttisbarátta þessarar aldar, 21. aldarinnar, hverfist svo um sjálfbæra þróun. Þar fer jafnréttisbarátta nýrrar aldar, barátta sem snýst um að tryggja jafnrétti kynslóðanna, jafnrétti jarðarbúa og jafnrétti kynjanna sem aldrei fyrr. Sjálfbærni verður ekki náð öðruvísi en með því að stjórna samfélögum með skýru jafnvægi milli umhverfissjónarmiða, félagslegra sjónarmiða og efnahagslegra sjónarmiða. Við viljum standa með þjóðinni gegnum erfiðleikana en við viljum líka standa með ófæddum börnum og komandi kynslóðum við sérhvert úrlausnarefni. Sjálfbær þróun er ekki bara ein af leiðunum út úr kreppunni. Hún er eina leiðin. Þrátt fyrir erfiðleikana og þung verkefni liðinna mánaða er margt að gerast sem er fagnaðarefni. Gróskan og hugmyndaflugið um allt land, ungt fólk og frumkvöðlar með nýjar og kraftmiklar hugmyndir, allt blæs þetta okkur von í brjóst, allt þetta sýnir að við erum á réttri leið. Vinstri hreyfingin – grænt framboð á erindi í ríkisstjórn Íslands einmitt núna. Við erum reiðubúin til að halda áfram. Þjóðin þarf vandaða og réttsýna ríkisstjórn. — Góðar stundir.