138. löggjafarþing — 2. fundur,  5. okt. 2009.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:36]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Góðir Íslendingar.

Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga,

mót þrautum sínum gekk hún djörf og sterk.

Í hennar kirkjum helgar stjörnur loga

og hennar líf er eilíft kraftaverk.

Þannig orti eitt ástsælasta skáld okkar Íslendinga, Davíð Stefánsson, á tímum þegar þjóðin var að brjótast úr viðjum fátæktar á leið til aukins sjálfstæðis og nútímalifnaðarhátta. Í dag stöndum við enn á þröskuldi nýrra tíma. Við stöndum frammi fyrir því eftir öld útrásartímans og skefjalausrar frjálshyggju að þurfa að endurreisa og endurmeta allt sem núlifandi kynslóð hefur gengið að sem vísu, þar á meðal velferðarsjónarmið okkar og siðferðisgildi. Við stöndum frammi fyrir því að verja efnahagslegt sjálfstæði, þetta dýrmæta sjálfstæði og fjöregg sem var lagt að veði eins og þegar barn kastar á loft sínu brothættasta gulli í algleymi leiksins.

Í ofbirtunni af villuljósi frjálshyggjunnar var þjóðin leidd út í fenin við trumbuslátt þess stjórnmálaflokks sem hefur verið boðberi þeirrar stefnu en vill þessa dagana ekkert við ábyrgð sína kannast. Já, hrævareldar frjálshyggjunnar blekktu og þjóðin uggði ekki að sér og nú þegar við stöndum á tímamótum er öllum hollt að líta stundarkorn um öxl og hugleiða vítin sem varast ber. Á mesta góðæristíma sögunnar jókst misskiptingin í samfélaginu og stjórnviskan brást, sú alþekkta og viðurkennda hagstjórn að ríkið eigi að halda að sér höndum þegar vel árar en auka svo umsvif sín og næra þannig atvinnulífið og hagkerfið þegar illa árar, var að engu höfð. Jöfnunarhlutverki skattkerfisins var raskað, sköttum var létt af þeim sem hæstar höfðu tekjurnar og byrðunum velt yfir á lágtekjufólkið. Mikilvæg fyrirtæki í eigu almennings voru færð fáum útvöldum, bankarnir seldir fyrir slikk í hendur manna sem ekki kunnu með að fara. Fiskveiðiauðlind þjóðarinnar var færð í hendur fárra útgerðarmanna endurgjaldslaust. Í kjölfarið fylgdi alvarleg byggðaröskun, kvótabrask og geigvænleg skuldasöfnun af sama toga og þeim sem olli efnahagshruninu sl. haust. Allt voru þetta mistök, rangar ákvarðanir teknar af þeim sem láta sér jöfnuð og félagslegt réttlæti í léttu rúmi liggja.

Góðir landsmenn. Verkefnið okkar fram undan er að leiðrétta þessi mistök og sú vegferð er þegar hafin. Þjóðin lyfti sjálf því grettistaki að knýja fram kosningar í vor og fá fram þá mestu endurnýjun sem orðið hefur á Alþingi með 27 nýjum þingmönnum og jafnara kynjahlutfalli en nokkru sinni fyrr á þeim vettvangi. Í fyrsta skipti í sögu okkar voru félagshyggju- og velferðaröflin leidd til öndvegis við stjórnun landsins. Það var ósk þjóðarinnar að sjónarmið jöfnuðar og félagshyggju yrðu höfð að leiðarljósi við uppbygginguna fram undan. Undir því trausti verða stjórnvöld að rísa og vinna sitt starf í anda jafnaðarstefnu og velferðarhugsjóna, það hefur aldrei verið brýnna en einmitt nú.

Eitt af þeim mikilvægu skrefum sem stíga þarf um þessar mundir er að leiðrétta ójöfnuð og virða þjóðarhag ofar þröngum sérhagsmunum. Sú ríkisstjórn sem nú situr tók þá tímamótaákvörðun sl. vor að vinna bug á því óréttlæti sem innleitt var í sjávarútveginum þegar núverandi kvótakerfi var komið á. Í stjórnarsáttmála var þjóðinni heitið því að afnema þetta kerfi á 20 árum og færa auðlindina með óyggjandi hætti í forsjá þjóðarinnar á ný. Fyrsta skrefið í þá átt að opna kvótakerfið var stigið með strandveiðum sumarsins og sú tilraun gefur góðar vonir um framhaldið. Aftur iðuðu hafnir og bryggjur landsins af lífi, aftur heyrðust vélarhljóð báta í fjörðum kvölds og morgna og fiskur spriklaði í körum. Það líf færði byggðum landsins von og jók þeim bjartsýni og ég vona að þessi fyrstu áþreifanlegu merki um bata í atvinnulífi landsmanna marki upphaf nýrra tíma.

Já, kæra þjóð, starfið er hafið og stjórnvöld sitja ekki auðum höndum. Það má þjóðin ekki gera heldur því að að endurreisn samfélags þurfa allir að koma, stjórnvöld, almenningur, fræðasamfélagið, fjölmiðlarnir, allir þegnar landsins.

Endurreisn samfélags krefst ekki aðeins fjármuna, eins og stundum mætti ætla af umræðunni. Endurreisn samfélags krefst hugsjónar, siðferðis og ábyrgðar og það er nú sem reynir á okkar innri gildi, kæru landsmenn.

Við Íslendingar erum kraftmikil þjóð sem höfum brotist úr viðjum fátæktar og hugarhelsis og lifað af áföll aldanna. Nú eins og oft áður bíður okkar ærinn starfi. Það er sókn til betra samfélags, velferðarsamfélags á grundvelli jafnaðarstefnu, og það er nú sem reynir á siðferði okkar, þrautseigju og styrk. Megi okkur vel farnast á þeirri vegferð. — Góðar stundir.