138. löggjafarþing — 2. fundur,  5. okt. 2009.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[22:00]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Ágætu landsmenn. Hér í kvöld höfum við nú heyrt aðra stefnuræðu forsætisráðherra og viðbrögð við henni. Ef svo fer sem horfir með þessa ríkisstjórn, yfirvofandi fjárlög og hið hefðbundna fjórflokkaþras má landsmönnum nú verða ljóst að heimilum landsins mun blæða út. Foreldrum má nú verða ljóst að skólaganga barna þeirra mun skerðast og vinnandi fólki má nú verða ljóst að kaupmáttur tekna þess mun skerðast enn meir.

Góðir landsmenn. Krafan um ný stjórnmál og þær vonir sem voru bundnar við að fá inn 27 nýja þingmenn að loknum kosningunum í vor hafa ekki gengið eftir. Af þessum 27 gengu 20 strax í björg og urðu kerfið frá fyrsta degi. Og nú hefur lýðræðissinnaðasti ráðherra ríkisstjórnarinnar verið rekinn úr henni. Nöfn þingmannanna eru kannski önnur, nöfn stjórnarflokkanna eru önnur, en samt er þetta sama fólkið og sama pólitíkin og verið hefur hér á þingi áratugum saman, sama fólkið og sama pólitíkin sem hvað eftir annað hefur misfarið með framselt vald kjósenda.

Fyrir rétt um ári varð hér algert efnahagshrun, algert pólitískt hrun og algert siðferðishrun ráðandi afla. Hér var við völd pólitísk yfirstétt sem hafði tapað öllum raunveruleikatengslum og hvers úrræði þegar alvarlega bjátaði á var að ákalla guð. Þeir valdhafar sem í upphafi árs 2008 vissu nákvæmlega hvert stefndi blekktu þjóðina. Þeir blekktu þjóðina fram á síðasta dag og þeir gerðu sitt besta til að blekkja umheiminn líka. Og þeir eru enn við völd á Íslandi og þeir reyna að stjórna með blekkingum.

Spunameistarar Samfylkingarinnar hafa nú slegið út Tony Blair og breska Verkamannaflokkinn í viðleitni sinni til að hylla sjálf sig. Það er lífsspursmál fyrir þjóðina að saklaus almenningur borgi skuldir einkabanka, segir forsætisráðherra, því að þá mun allt fara vel, treystið mér.

Og hæstv. félagsmálaráðherra: Sjáið, hér er nammi, segir hann, þar sem hann reynir að sannfæra skuldsett íslensk heimili um að þetta reddist nú allt saman eftir nokkur ár ef við bara fylgjum þessari vísitölu en ekki hinni. Kaupið bara þvottaefnið mitt, það er gott og við erum góð.

En að gera eitthvað raunhæft í skuldavanda heimila er af og frá, og af hálfu Samfylkingar talið óþarft og jafnvel varasamt. Í staðinn er bara boðið upp á eilífa nammidaga í Evrópusambandinu.

Frú forseti. 20. janúar sl. er skráður á spjöld Íslandssögunnar. Þann dag varð hádegisverðarhlé þúsunda Íslendinga að mestu mótmælum í sögu þjóðarinnar. Alþingi var umkringt af þeim „skríl“ og þeirri „ekki-þjóð“ sem valdhafar höfðu hrakyrt mánuðum saman og í hroka sínum reiknað með að léti hvað sem væri yfir sig ganga.

Hafi einhver efast um fjarlægð þingsins frá fólkinu og firringu þingmanna var þeim efa eytt þann dag þegar brýnasta málið á dagskrá þingsins var sprúttsalafrumvarp Sjálfstæðisflokksins. En hefur eitthvað breyst? Við þingsetninguna á fimmtudaginn var almenningi haldið enn lengra frá þinghúsinu og enn lengra frá þingmönnum en nokkru sinni fyrr. Er ekki kominn tími til að þingmenn velti því alvarlega fyrir sér í hvers umboði þeir eru hér inni, þegar almenningur er orðinn að óvinum?

Virðulegi forseti. Í janúar mótmæltum við ásamt þúsundum annarra. Við unnum, og versta ríkisstjórn Íslandssögunnar fór frá. Að loknum kosningum tók við ríkisstjórn sem við styðjum og viljum eiga samstarf við. En hana hefur borið langt af leið og því mótmælum við áfram.

Við mótmælum þeirri forgangsröð sem setur hugmyndafræði og aðferðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ofar hagsmunum íslensks almennings.

Við mótmælum þeirri forgangsröð sem setur framlög til stjórnmálaflokka og ríkiskirkju ofar hagsmunum veikra og ofar hagsmunum barna.

Við mótmælum þeirri forgangsröð sem setur hagsmuni fjármagnseigenda ofar hagsmunum heimilanna í landinu.

Og við mótmælum þeirri forgangsröð sem setur hagsmuni Breta og hagsmuni Hollendinga ofar hagsmunum Íslendinga.

Frú forseti. Alþingi Íslendinga er að verða komið að fótum fram og nýtur ekki stuðnings almennings og ef takast á að laga það þarf að koma meira til en meira af því sama. Það þarf að koma til skynsemi, heiðarleg skynsemi og róttæk skynsemi, sem viðurkennir að íslensk stjórnmál, íslenskt stjórnkerfi og íslensk stjórnsýsla er orðin úrelt og úrkynjuð af nepótisma og pólitískri spillingu.

Ekkert af þeim 184 málum — já, ég endurtek, þeim 184 málum — sem ríkisstjórnin hyggst leggja fram á þessu þingi tekur á þessum atriðum. Meira að segja frumvörp ríkisstjórnarinnar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur og um ráðgefandi stjórnlagaþing eru blekkingarleikur og blaut tuska í andlit lýðræðisins og væru í raun hlægileg ef ekki væri um svo mikilvæg mál að ræða.

Frú forseti. Hér þarf að koma á afgerandi og brýnum lýðræðisumbótum sem taka mið af hagsmunum og vilja almennings en ekki hagsmunum og vilja þingmanna. Þjóðin þarf sjálf að semja sér sína eigin stjórnarskrá, stjórnarskrá sem samin er af fólkinu og fyrir fólkið, en ekki sem samin er af Alþingi og fyrir Alþingi. Vonir fólks um réttlæti, sanngirni og virðingu mega ekki hverfa. Annars fer illa. Þessi ríkisstjórn ber ábyrgð á því og þetta þing ber ábyrgð á því.

Við þingmenn Hreyfingarinnar erum ekki mörg en við erum hér í umboði manna og kvenna sem sum hver stóðu með okkur á Austurvelli mánuðum saman. Við munum tala þeirra máli úr þessum stól, ætíð. Svo einfalt er það.

Frú forseti. Fyrir um ári fórum við út í októbernæðinginn og gerðum byltingu utan dyra í íslenskum vetri. Vorið kom svo og við komumst inn á þing.

Hver hefði nokkurn tíma trúað að það væri hægt?

Frú forseti. Það var bara byrjunin og það er mikið verk óunnið. — Gleðilegt þing.