138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er sannast sagna orðið heldur hjákátlegt þegar hæstv. forsætisráðherra reynir í endalausum vandræðagangi sínum eina ferðina enn að búa til þá mynd að hér hafi allt farið á þann hátt sem það fór vegna þess hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna. Ég hef ítrekað það margoft að það þarf að rannsaka og Framsóknarflokkurinn kannast svo sannarlega við ábyrgð sína í því máli. En hver er ábyrgð Samfylkingarinnar þar? Börðust ekki fulltrúar þess flokks gegn því að farið yrði í dreifðari eignaraðild á bönkunum? Voru þeir ekki miklu meira áfram um einkavæðingu bankanna allt frá tíunda áratugnum, upphafi hans, en framsóknarmenn nokkurn tíma? Að ætla að hengja sig í endalausa sögufölsun til þess að komast hjá því að horfast í augu við raunveruleikann sem menn standa frammi fyrir nú, skilar okkur lítið áleiðis. Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í það.

Ég get hins vegar glatt hæstv. forsætisráðherra með því að í ræðu minni á eftir mun ég svara þeim spurningum sem hæstv. ráðherra varpaði fram um að hverju þyrfti að huga, hvað þyrfti til þess að koma hagkerfinu aftur af stað. Þar komum við því miður aftur og aftur að tómum kofanum hjá ríkisstjórninni þrátt fyrir að því hafi verið haldið fram í næstum því ár að það vanti bara herslumuninn og alltaf finna menn nýjar ástæður sem skýringar á því hvers vegna þennan herslumun vantar. Það var seðlabankastjórinn, það var skýrsla um stöðu bankanna, það var Evrópusambandið og nú er það Icesave. Alltaf vantar herslumuninn og alltaf er Samfylkingin algjörlega ráðalaus í ríkisstjórn.