138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef í þessari umræðu gjarnan vísað til gagna sem koma frá ríkisstjórninni sjálfri eins og t.d. því sem fjármálaráðuneytið tók saman í febrúar, til tölulegra staðreynda sem sýna að framlög til velferðarmála á árunum frá 1999 og 10 árin þar á eftir jukust um 79%. Þetta kallar hæstv. forsætisráðherra velferðarkerfi sem er að drabbast niður. Og þegar rætt er um það norræna velferðarkerfi sem lofað er, hvað boða fjárlögin? Fjárlögin boða niðurskurð sem mun kalla á hópuppsagnir á Landspítalanum og á sama tíma er verið að stórskerða framlög til sjúkratrygginga þannig að sjúklingar sem undir venjulegum kringumstæðum hafa getað sótt þjónustu á Landspítalann munu ekki geta gert það lengur. Þeir munu líka fá minni þjónustu annars staðar þannig að það verður hvorki á Landspítalanum né í sjúkratryggingakerfinu sem þeir munu fá þjónustu. Þetta eru því mikil öfugmæli þegar verið er að tala um að velferðarkerfið hafi verið að drabbast niður en að nú bíði okkar betri tímar.

Það er margt sem þarf að gera og ég mun koma inn á það í ræðu minni á eftir að vissulega fór ýmislegt úrskeiðis og regluverkið var ekki fullkomið. Það var þó í öllum meginatriðum sambærilegt við það sem við þekkjum annars staðar frá. En spurningin var um gegnsæjar reglur og verkefni skilanefndanna. Bankarnir voru sjálfir farnir að tala um þessar gegnsæju reglur í upphafi þessa árs. Ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að tryggja þetta gegnsæi, til að búa þannig um hnútana að öruggt sé að við meðhöndlun skulda í bönkunum sé þetta gegnsæi til staðar og öllum vafa eytt um að þar sé einstökum skuldurum mismunað. Ríkisstjórnin hefur haft allt þetta ár og þess vegna er ekki að furða þegar við lukum umræðunni í gær að til að mynda (Forseti hringir.) hæstv. félagsmálaráðherra segði: Það er ár síðan hrunið varð, nú þurfum við að fara að gera eitthvað.