138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:07]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet formann Sjálfstæðisflokksins og hv. þingmann til að lesa vel þá skýrslu sem birt er í dag þar sem farið er 20 ár aftur í tímann og reynt að skoða þá þróun sem orðið hefur á velferðarkerfinu m.a. hvaða breytingar hafa orðið á skattkerfinu, hvaða áhrif þær hafa haft. Það voru Félagsvísindastofnun og Hagfræðistofnun sem unnu skýrsluna þannig að ég geri ráð fyrir að hægt sé að treysta því sem þar kemur fram. Dregin er upp mynd af óstjórn á því tímabili sem farið er yfir. Ekki var sýnt fram á að einhver sérstök hagsæld hafi verið á þessu tímabili heldur hafi þetta fremur verið óstjórn.

Þegar rætt er um, eins og hv. þingmaður segir, velferðarkerfið og þá erfiðleika sem við þurfum að takast á við núna er alveg ljóst að við þurfum að fara í verulegan niðurskurð og við þurfum að fara í verulegar skattabreytingar. En það er mjög mikilvægt að það sé gert eins og kostur er út frá þeim sjónarhóli að við getum varið velferðarkerfið eins og kostur er. Ég geri mér grein fyrir því að þetta mun koma niður á öllum en við erum þó að gera tilraun til að verja velferðarkerfið eins og kostur er. Ég vil biðja hv. þingmann að líta líka til þess og bera saman kjör lífeyrisþega á þeim tíma þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn stjórnuðu — þá dröbbuðust niður kjör lífeyrisþega. En það var fyrst á árunum 2007 að við náðum því í gegn í Samfylkingunni, þá að vísu með Sjálfstæðisflokknum, að verulegar umbætur urðu á kjörum lífeyrisþega sem þeir búa að á margan hátt núna þegar við förum út í þá erfiðu vinnu sem fram undan er í fjárlagagerðinni.

Ég bendi hv. þingmanni á það þegar hann nefnir Landspítalann að ég man ekki eftir því, jafnvel ekki á velsældarárunum, að ekki hafi vantað verulega upp á fjármagnið á Landspítalanum, til að halda uppi rekstri þar.