138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:26]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér var komið inn á nokkur atriði bæði skyld og óskyld. Varðandi samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þarf þetta að vera á hreinu: Ég er ekki að tala fyrir því að við rekum hann úr landinu einn, tveir og þrír. Þeir atburðir sem hafa gerst og sú þróun sem hefur átt sér stað frá því að lagt var af stað í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn leiðir til þess að við hljótum að endurskoða samstarfið við hann. Ég segi jafnframt að ef okkur standa engin lán til boða frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum án þess að sæta afarkostum í Icesave-málinu þá vil ég ekkert hafa með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að gera.

Hvort vil ég semja um Icesave eða fara í dómsmál? Ég sagði það í ræðu í desember í fyrra, það kom fram í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar og ég hef sagt það mörgum sinnum síðan: Helst hefði ég viljað fá samkomulag í Icesave-málinu, en ég kalla það ekki samkomulag ef Bretar og Hollendingar fá allt sitt og við fáum ekkert annað en risalán til 2040 á 5% vöxtum fyrir allri upphæðinni. Ég kalla það ekki samkomulag fyrir okkur Íslendinga. Það er miklu betra að taka á sig alla skuldbindinguna eftir dómsniðurstöðu en að skrifa einfaldlega upp á það án þess að skuldbindingin liggi fyrir. (Gripið fram í.)

Þegar ég sagði hér í fyrra að við ættum frekar að leita samninga en að fara í dómsmál var ég að vísa til þess að ef við færum í dómsmál gætum við mögulega tapað því að fullu, fyrst ættum við að reyna samningaleiðina. Hún hefur engu skilað og þá er eins gott að fá þetta á hreint. Er það ekki líka þannig að ef á að leggja hundruða milljarða skuldbindingar á íslenskan almenning til margra áratuga að hann eigi þá rétt á því að hafa sannfæringu fyrir að við höfum ekki haft aðra valkosti, að þetta (Forseti hringir.) séu okkar þjóðréttarlegu skuldbindingar? Verðum við dæmd til þess að gera þetta er ég sannfærður um að fjármögnun þess til langrar framtíðar verður ekki bara íslenskt vandamál heldur samevrópskt vandamál. Vandamál Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins.