138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:29]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom sér hjá því að svara því hvaða áhrif það hefði ef við næðum ekki að semja um Icesave-málið, ef við fengjum ekki lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ekki Norðurlandalánin. Ég spurði hvaða áhrif hv. þingmaður teldi það hafa á gjaldeyrisforðann, þar með gjaldeyrishöftin, gengið og endurreisn bankakerfisins. Ég spyr enn og óska sérstaklega eftir að þingmaðurinn svari:

Telur hv. þingmaður að það geti haft áhrif á lánshæfismat þjóðarinnar ef verulegur dráttur verður á að fá niðurstöðu í þessi tvö mál sem við höfum beðið eftir að fá niðurstöðu í? Óttast þingmaðurinn að það geti haft alvarleg áhrif á lánshæfismatið? Hvaða áhrif telur hv. þingmaður að það hafi á trúverðugleika þjóðarinnar á alþjóðavettvangi ef okkur tekst ekki að ná niðurstöðu í þetta mál? Og hvernig vill hv. þingmaður styrkja gjaldeyrisforðann — sem ég trúi ekki öðru en hann sé mér sammála um að þurfi — ef við náum ekki niðurstöðu í þessi mál og förum hans leið sem getur tekið marga mánuði fyrir dómstólum?