138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:47]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þór Saari fyrir fyrirspurnina og fyrir það að taka undir efasemdir mínar um ágæti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða ágæti efnahagsstefnu hans hér á landi. Ég var í upphafi, í nóvember á síðasta ári, alls ekki andsnúin veru hans hér á landi. Ég taldi að við mundum njóta góðs af því að hafa fólk sem kynni að semja um skuldir við alþjóðlega kröfuhafa. Því miður hefur Icesave-málið sýnt okkur að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veitir okkur ekki þá aðstoð sem talað er um að hann geti veitt þjóðum, þ.e. að koma í veg fyrir að of miklum skuldum sé hlaðið á þjóðir. Eina ástæðan fyrir því að ég gat sætt mig við veru hans hér hérna er farin. Ég vissi alltaf að efnahagsáætlun hans mundi gera kreppuna dýpri og gera okkur erfiðara um vik að komast út úr hruninu.