138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Eftir hina undarlegu ræðu hæstv. forsætisráðherra þar sem enn á ný var verið að reyna að koma inn tiltekinni söguskoðun hafði ég hugsað mér að fara yfir aðkomu Samfylkingarinnar að hruninu öllu saman en núna hefur mér snúist hugur því að maður er hálfpartinn farinn að vorkenna Samfylkingunni. Ráðaleysið virðist vera svo algert og eftir ræðu hæstv. forsætisráðherra get ég eiginlega ekki annað en reynt að leggja til einhverjar uppbyggilegar leiðir fyrir þessa ríkisstjórn. Þá er mikilvægt fyrir ríkisstjórnina að gera sér grein fyrir því að ástandið þarf ekki að vera eins flókið og þau vilja vera láta.

Ég fór aðeins yfir það í gærkvöldi að vandi Íslands liggur fyrst og fremst í skuldunum sem hvíla á ríkissjóði, á sveitarfélögum, fyrirtækjum og heimilum. Ef litið er fram hjá þessum skuldum er framleiðslugeta landsins alveg gríðarlega mikil, svo ekki sé minnst á náttúruauðlindirnar og að sjálfsögðu þann auð sem býr í fólkinu og því kerfi sem byggt hefur verið upp á mörgum áratugum, ekki hvað síst fyrir tilstilli Framsóknarflokksins. Þetta kerfi er annars til staðar, þessir innviðir samfélagsins sem geta skapað alveg óhemjuverðmæti núna næstu missirin. Vandinn eru skuldirnar. Ef við einbeitum okkur að því að ráðast gegn þeim kjarna vandans eru okkur allir vegir færir. En spurningin er þá: Er möguleiki á því? Höfum við aðstöðu til þess að einbeita okkur að þeim vanda? Svarið við því er einfaldlega já, því að sérstaða Íslands í þessari kreppu, fjármálakrísunni sem nú hefur gengið yfir allan heiminn, er sú að langmest af því tapi sem hér hefur orðið vegna hrunsins stefndi í að lenda hjá erlendum áhættufjárfestum.

Vissulega hafa margir Íslendingar tapað miklum peningum og margir stórum hluta eigna sinna, svo ekki sé minnst á atvinnuleysið sem af þessu hefur leitt. En af heildartapinu liggur langmest af því hjá þessum erlendu áhættufjárfestum sem lánuðu íslensku bönkunum allt of mikla peninga þótt þeir vissu að íslensku bankarnir fjárfestu með mjög áhættusæknum hætti, eins og reyndar bankar svo víða annars staðar. Þess vegna benti bandaríski bankinn og ráðgjafarfyrirtækið JP Morgan á það strax í október í fyrra að aðalatriðið fyrir Íslendinga væri að tryggja að þetta gríðarlega tap færðist ekki yfir á íslenska skattgreiðendur og íslenska ríkið. Það hefði átt að vera alger grunnforsenda en því miður hefur þetta tap verið að færast í auknum mæli yfir á íslenskan almenning. En það er ekki of seint að snúa þeirri þróun við. Icesave er þar að sjálfsögðu grundvallaratriði sem ég ætla þó ekki að eyða mikið meiri tíma í í þessari ræðu því að það hefur þegar verið rætt nógu mikið og verður eflaust rætt eitthvað síðar. En annað er það hvernig staðið er að stofnun nýju bankanna. Með því að tryggja að áhætta þessara banka færist ekki yfir á ríkissjóð er strax búið að girða fyrir verulega áhættu. Í hverju liggja þá þessar miklu skuldir því til viðbótar? Jú, það eru þessi gríðarlega háu lán sem menn vilja taka hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í einhverjum illskilgreindum tilgangi, til að reyna að halda uppi gengi krónunnar með þessum lántökum. Þó liggur alveg ljóst fyrir að vaxtamunurinn verður gríðarlega mikill og skuldsetningin að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sjálfs frá því í nóvember verður þá orðin óbærileg fyrir Ísland, sérstaklega eftir að Icesave-skuldirnar bætast við, ef svo illa fer.

En hvað ef við tökum ekki þessi lán eða höfum á þessu annað fyrirkomulag, til að mynda með samningum um lánalínu hjá Norðmönnum, hver er aðstaða okkar þá? Og ef við tryggjum að tap bankanna færist ekki yfir á ríkið og ráðumst jafnframt í aðgerðir, sem ég fer aðeins betur yfir á eftir, til að lækka skuldir, höfuðstól skulda íslenskra heimila og fyrirtækja, þá er allt til reiðu því að ef okkur tekst að vinna bug á skuldavandanum leysir afgangurinn sig sjálfur. Við erum að flytja út miklu meiri verðmæti upp á hvern einasta dag en við kostum til innflutnings. Þegar öllu er á botninn hvolft er það einungis það sem getur styrkt gengi krónunnar til lengri tíma litið.

Það hafa margir orðið til að benda á það að undanförnu, m.a. margnefndur Joseph Stiglitz Nóbelsverðlaunahagfræðingur, að ekki er hægt að halda uppi verði gjaldmiðils með lántöku. Með því eru menn í rauninni að gera það nákvæmlega sama og sum fyrirtæki gerðu fyrir hrun þegar þau reyndu að halda uppi verði eigin hlutabréfa með lántöku og nota svo lánin til að kaupa upp hlutabréfin því að gjaldmiðill er í raun ekkert annað en hlutabréf í því ríki eða á því efnahagssvæði sem hann tilheyrir. Hann er mælikvarði á undirliggjandi verðmæti. Þegar gengi krónunnar fellur er það því vísbending um að menn telji að fyrirtækið Ísland, ef svo má segja, sé að falla í verði. Og af hverju ætti fyrirtækið Ísland, sem gengur svona ljómandi vel, flytur út, selur miklu meira en það kostar til, að lækka svona í verði? Það er eingöngu vegna skuldsetningarinnar, vegna þess að menn sjá fyrir sér að það stefni í þrot, haldi skuldirnar áfram að vaxa með þeim hætti sem þessi ríkisstjórn gerir ráð fyrir. Takist hins vegar að girða fyrir það mun þessi útflutningur smátt og smátt skila sér í sterkara gengi og þá er mikilvægt að hafa í huga að gengið verður að styrkjast jafnvel þótt menn hugsi sér að skipta því út fyrir annan gjaldmiðil síðar. Ætli menn að skipta krónunni út á svona lágu gengi eins og hún er í núna, erum við einfaldlega að festa í sessi fátækara ríki en ella. Hvað svo sem gerist þarf gengið að styrkjast og það gerist ekki öðruvísi en með sjálfbærum hætti, þ.e. útflutningur verði áfram meiri en innflutningur og skuldirnar fari ekki með kerfið á hliðina.

Þá komum við að grunninum, heimilunum og fyrirtækjunum. Er aðstaða til að lækka skuldir þar? Já, loksins er ríkisstjórnin reyndar farin að viðurkenna að það sé ekki aðeins nauðsynlegt að lækka greiðslubyrðina heldur þurfi að gera það með almennum aðgerðum, eins og Framsóknarflokkurinn hefur reynt að benda á frá því í byrjun árs. En betur má ef duga skal. Það verður að viðurkenna strax að verulegur hluti höfuðstólsins er tapaður og afskrifa þann hluta því að einungis þannig kemst markaðurinn af stað, til að mynda markaður með fasteignir. Menn geta aftur farið að eiga viðskipti og þá fylgir verðmætasköpun í samfélaginu fyrir almenning í landinu og fyrir ríkið líka sem mun þá hafa auknar skatttekjur. Ég tel fullvíst að erlendir kröfuhafar, og þar með talið þeir sjóðir sem hafa keypt skuldabréf bankanna, geri sér grein fyrir því að þeir munu þurfa að afskrifa verulegan hluta lánanna og reyndar stendur sú afskrift þegar yfir með færslu lánanna úr gömlum bönkum yfir í þá nýju. Það sem vantar hins vegar upp á er að sú afskrift sé látin ganga áfram til þeirra sem skulda. Sé það gert hagnast allir á því á endanum vegna þess að með því kemst hagkerfið aftur af stað og kröfuhafarnir eiga þá von um að innheimta a.m.k. hluta skuldanna.

Hinn kosturinn er sá að halda skuldaklafanum á samfélaginu áfram, þrátt fyrir að í raun sé megnið tapað, en að halda þessu áfram á bókunum eins og var reyndar gert í Japan og hefur verið gert síðustu 20 árin með þeim afleiðingum að hagkerfið þar hefur verið í stöðnun núna í tvo áratugi. Þess vegna er miklu betra að viðurkenna strax að afskrifa þurfi þessar skuldir að verulegu leyti og hafa þá í huga að þessar skuldir eru að langmestu leyti í eigu erlendra aðila. Tjónið fyrir Ísland er ekki nærri því jafnmikið og það hefði orðið hefði fjármögnunin öll átt sér stað innan lands. Enn ítreka ég að þegar á hólminn er komið verður þetta að öllum líkindum hagstæðara fyrir þessa lánveitendur. En til að geta farið slíkar leiðir verða menn að vera tilbúnir til að leita lausna en það hefur algerlega vantað hjá þessari ríkisstjórn frá því að hún tók við. Ég tel að fyrst hafi ástæðan verið hræðsla, hræðsla við aðstæður og ákvarðanir. Svo er farið í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þá tekur það við af hræðslunni að menn treysta sjóðnum algerlega til að leiða sig í gegnum vandann. Eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi í ræðu sinni áðan telur ríkisstjórnin að leið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé leið okkar út úr kreppunni. Ekkert er fjær sanni eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir gerði svo vel grein fyrir áðan. Fleiri og fleiri hafa bent á að þessi aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins líkist sífellt meira eða sé í rauninni orðin algerlega eins og aðkoma þessarar sömu stofnunar í svo mörgum ríkjum fram að þessu. Sú leið sem talað er fyrir hér hefur aldrei nokkurn tíma virkað. Hættan er sú að verði haldið áfram með þeim hætti að innviðir samfélagsins sem þrátt fyrir allt eru sterkir, þessir innviðir sem við höfum byggt upp um margra áratugaskeið fari að skemmast, þá erum við lent í raunverulegri, djúpri og langvinnri kreppu. Þá erum við ekki lengur bara í skuldakreppu. Þá er vandamálið orðið miklu flóknara og miklu erfiðara að ráðast gegn því. Það er það sem þessi ríkisstjórn verður að gera og átti að gera strax í upphafi, að tryggja að innviðir samfélagsins skemmist ekki. En hvað er hún að gera? Hún er að fylgja í blindni stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og það birtist m.a. í fjárlagafrumvarpi sem felur það í sér að það á að vega að þessum innviðum. Það á að ráðast í niðurskurð sem til lengri tíma litið skilar engum sparnaði eða tekjum heldur eyðileggur meira að segja innviði velferðarkerfisins þrátt fyrir að þessi ríkisstjórn hafi hvað eftir annað ítrekað að staðið yrði vörð um innviðina og velferðarkerfið. En meira að segja velferðarkerfið á nú að sæta niðurskurði að hætti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ef við förum þessa leið gröfum við okkur ekki aðeins dýpra í kreppu heldur verðum við þá líka að láta hjá líða að ráðast að rót vandans því að þó að hér hafi mikið verið fjallað um aðkomu einstakra flokka að einhverjum tilteknum aðgerðum sem hæstv. forsætisráðherra telur að hafi leitt til hrunsins, hefur minna farið fyrir því að kerfisvandinn sé ræddur, þeir gallar sem eru á kerfinu á Íslandi og í öðrum löndum og eru hin raunverulega ástæða þess að hér fór eins og fór og raunar miklu víðar. Ef menn nota ekki tækifærið til að laga kerfið mun sagan því miður endurtaka sig. Kerfisvandinn er ekki bara hér, hann er um allan hinn vestræna heim og raunar miklu víðar. Þá eru bankar í Bandaríkjunum og um alla Evrópu álíka illa staddir og þeir íslensku. Munurinn liggur í því að þau ríki sem þeir bankar tilheyra eru miklu stærri og burðugri, þau gátu bjargað bönkunum með ærnum tilkostnaði. Íslenska ríkið var hins vegar of smátt í samanburði við stærð bankanna til að geta bjargað þeim. Að vissu leyti má halda því fram að það sé kostur því að við höfum þá ekki kostað eins miklu til til að viðhalda bankakerfi sem að margra mati er enn þá ósjálfbært. Margir telja að bankakerfi víða annars staðar muni ekki geta staðið af sér fjármálakrísuna til lengri tíma litið.

En hvað er þá unnið með því að við skellum skuldinni allri á íslenskan almenning í stað þess að horfast í augu við að við innleiddum erlent fyrirkomulag sem virkar ekki og viðurkenna það, og hvað sem okkur finnst um Evrópusambandið, Evrópska efnahagssvæðið og EES-samninginn eru á því eru verulegir gallar. Íslensku bankarnir hefðu ekki getað farið í hina miklu útrás hvort heldur sem við lítum til þeirra banka sem voru einkavæddir eða bankanna sem voru í einkaeigu fyrir. Þeir hefðu ekki getað farið í útrás nema vegna EES-samningsins og Evrópureglnanna. Ef við stefnum inn í Evrópusambandið eigum við þá ekki að reyna að laga þessar reglur, taka þátt í því að benda á hvað aflaga fór í stað þess að vera fremst í flokki við að reyna að fela hið raunverulega vandamál eins og því miður hefur verið gert í Bandaríkjunum? Þar er allt farið aftur í sama farið, milljarðabónusarnir og kaup bankanna í öðrum bönkum eru að taka á sig nákvæmlega sömu mynd og á Íslandi og annars staðar í Evrópu líka, ekki hvað síst í Bretlandi. Ætlum við að taka þátt í að viðhalda þessum blekkingarleik, taka skellinn, verða fórnarlömb fyrir alheimskapítalismann, þennan gallaða kapítalisma, eða ætlum við að nota reynslu Íslands til að bæta kerfið og náttúrlega umfram allt, að koma í veg fyrir að afleiðingar hrunsins lendi af fullum þunga á íslenskum almenningi?