138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:04]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Það er ekki við hæfi að svo fáir séu í þingsal við þessa umræðu. Greinilegt er að menn skammast sín, hafa ekki áhuga á að heyra það sem sagt er, vilja ekki taka á vandamálinu. Sópum þessu undir teppið, þetta reddast allt, við gerum þetta bara eins og venjulega, mætti segja mér að flestir hugsuðu.

Það er gott að þessi umræða fer fram og ég fagna frumkvæði forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar að því að minnast þessa dags. Hér brugðust allar þær stofnanir sem gátu brugðist: Seðlabankinn, stjórar þar, starfsmenn og sviðsstjórar; Fjármálaeftirlitið, stjórar þar, starfsmenn og sviðsstjórar; ríkisendurskoðandi og hans eftirlitshlutverk, ráðherrar í ríkisstjórninni sem var við völd og þeir alþingismenn sem voru hér einnig. Ég leyfi mér að efast um að nokkurn tímann hafi annað eins gerst í nokkru siðmenntuðu samfélagi í sögunni, að minnsta kosti ekki í vestrænu lýðræðissamfélagi, að málum hafi verið komið þannig fyrir að allt stjórnkerfið gæti hrunið eins og spilaborg á nánast einni nóttu. Þá hljótum við að velta fyrir okkur hvers vegna gat þetta gerst og hvernig.

Þetta gerðist, frú forseti, vegna þess að hér hefur hefðin í stjórnmálum verið byggð á persónulegum kunningjatengslum, ættartengslum, pólitískum tengslum. Nepótisma og spillingu væri réttara að kalla það, þar sem mönnum er klappað á bakið fyrir að vera í réttum flokki, þeim er sköffuð vinna í stjórnsýslunni fyrir að vera í réttum flokki — Jói frændi fær vinnu þarna. Ekki eru til nein alvörulög eða alvörureglur um ráðningar í stjórnsýsluna eins og í nágrannalöndunum. Kunningjasamfélagið gerði að verkum að hér hrundi allt. Það er óþarfi að fara í einhverjar grafgötur með þetta og vísa í að bankar úti í heimi hafi hrunið eða að regluverkið hafi verið svipað og annars staðar. Það er kapítuli út af fyrir sig að hrekja þá vitleysu því að regluverkið á Íslandi var ekki eins og það var annars staðar.

Daginn eftir að fyrsta stjórn Fjármálaeftirlitsins var skipuð snæddi ég hádegisverð með nýskipuðum stjórnarmanni þar. Hann sagði mér að daginn áður hefði hann verið skipaður í fyrstu stjórn hins nýja Fjármálaeftirlits. En það einkennilega var, sagði hann, að ráðherrann — ráðherrann var framsóknarmaður — gerði að skilyrði að ég væri sammála því að sonur Páls Péturssonar félagsmálaráðherra yrði ráðinn sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Þetta er í hnotskurn það sem var að og má ekki gerast aftur.

Honum fannst þetta allt í lagi. Þetta var háttsettur maður í einni þeirra eftirlitsstofnana sem áttu að hafa eftirlit með fjármálum á Íslandi, hann gerði ekki athugasemd og þáði skipun í stöðuna með þessum skilmálum. Þá hlýtur maður að spyrja — ég hlýt að spyrja mig og ég hlýt að spyrja alla þingmenn og ég hlýt að spyrja forsætisráðherra: Hvað er hægt að gera til að þetta gerist ekki aftur?

Fjármálakerfið hér starfaði eftir rammalöggjöf Evrópusambandsins. Allar nágrannaþjóðir Íslands tóku þann ramma og prjónuðu inn í hann stífari reglur, sumar sem hæfðu hverju landi fyrir sig, aðrar sem einfaldlega hæfðu alþjóðlegu umhverfi til að koma í veg fyrir að útsjónarsamir braskarar gætu spilað á kerfið út og suður. Allar nágrannaþjóðir Íslands gerðu þetta. Hér var rammalöggjöfin send til umsagnar hjá fjármálafyrirtækjum. Þau voru spurð hvort nokkru þyrfti við að bæta og svarið var: Nei, þetta er fullnægjandi. Þetta er vitað og ekki hægt að fela sig, eins og menn eru búnir að gera í umræðunni hvað eftir annað, á bak við að hér hafi reglugerðarverkið verið svipað og í nágrannalöndunum. Það var einfaldlega ekki þannig vegna þess að Ísland og íslensk stjórnsýsla hefur aldrei verið eins og í nágrannalöndunum.

Frú forseti. Minnst hefur verið á hvað þessi kreppa kostaði okkur. Þær upplýsingar sem voru í Morgunblaðinu í morgun um 63 milljarða kr. til viðbótar úr nýju bönkunum til að kaupa upp ónýt bréf í peningamarkaðssjóðum eru bara enn einn dropinn sem fyllir löngu fylltan mæli. Mikið verk er fyrir höndum ef á að vinda ofan af þessu öllu saman. Þetta er sennilega eitt mesta bankahrun sem átt hefur sér stað í veraldarsögunni ef tekið er mið af hlutfallstölum. Stjórnmálahrunið sjálft og siðferðishrunið er ekki komið endanlega í ljós. Skýrslu Alþingis er beðið en miðað við embættismennina sem hafa komið fyrir þær þingnefndir sem ég er í er ekki mikill hugur í stjórnendum þeirra stofnana að gera mikið í málunum.

Bankastjórar Seðlabankans brugðust, stjórnendur sviða Seðlabankans brugðust og vissir starfsmenn Seðlabankans brugðust. Nýskipaður seðlabankastjóri kom fyrir efnahags- og skattanefnd ekki fyrir löngu þar sem ég spurði hann hvað hann ætlaði að gera í því máli. Innan bankans er heilt svið, fjármálastöðugleikasvið, sem hafði það eina hlutverk að tryggja fjármálastöðugleika á Íslandi. Þegar starfsmenn þess voru ráðnir inn voru þeir á svo háum launum að það þurfti að hækka laun bankastjóranna í kjölfarið. Ekki hefur verið hróflað við einu eða neinu þar. Þetta kerfi, virðulegi forseti, getum við ekki búið við áfram. Þarna verður að taka til.

Forstjóri Fjármálaeftirlitsins var látinn fara en allir hinir eru enn til staðar. Svona er þetta út um allt í stjórnsýslunni. Það eru sömu embættismennirnir sem eru við völd, sem gefa ráð, sem eru að reyna að redda sér fyrir horn. Við höfum séð þetta í bönkunum og í skilanefndunum og á þessu verður að taka líka.

Það er ekki lengra síðan en í morgun að ríkisendurskoðandi kom á fund fjárlaganefndar til að kynna ársskýrslu sína. Ég spurði hann hvað Ríkisendurskoðun hefði gert þegar seðlabanki þjóðarinnar tapaði nærri 300 milljörðum kr. nánast á einu bretti, hvaða athugasemdir ríkisendurskoðandi hefði gert við starfsemi Fjármálaeftirlitsins, sem hefði ekki haft neitt eftirlit með höndum heldur hefði allt kerfið hrunið. Svar ríkisendurskoðanda var: Við fórum yfir ársreikningana. Ríkisendurskoðandi sem starfar svona er að mínu mati ekki að sinna starfi sínu og við höfum ekkert við hann að gera, ekki neitt. Ríkisendurskoðandi er varðhundur þingsins og varðhundur almennings gagnvart stjórnsýslunni og þarna verður að taka til.

Nú nýverið er komin út skýrsla um aukið eftirlitshlutverk þingsins. Ég fagna þeirri skýrslu og þeim sem óskuðu eftir henni og þeirri umfjöllun sem var um hana í forsætisnefnd um daginn. Mikið er hægt að gera til að tryggja að þetta gerist ekki aftur en ég dreg ekki dul á að mikið verk er fyrir höndum. Það verður dýrt og erfitt að taka til eins og þarf að taka til. Það er ekki bara öll stjórnsýslan sem er undir, að ég tel eftir að hafa starfað í stjórnsýslunni í áratug. Reyndar þarf að taka þrjú efstu lögin, ráðuneytisstjórann og forstjórana, skrifstofustjórana og sviðsstjórana og deildarstjórana og annaðhvort segja þeim upp og endurráða þá annars staðar í stjórnsýslunni eða bara segja þeim upp og færa til þannig að þeir geti ekki haldið áfram á sömu nótum og verið hefur.

Íslensk stjórnsýsla hefur ekki starfað með sambærilegum hætti og stjórnsýsla nágrannalandanna. Við þurfum að koma á kerfi sem tryggir að stofnanir sem fara með almannafé og skattfé landsmanna fari vel með það og gæti hagsmuna almennings en ekki hagsmuna þeirra stjórnmálaflokka sem eru í meiri hluta á þingi hverju sinni. Þetta er hluti af þeirri endurreisn sem er óumflýjanleg og hluti af þeirri endurreisn sem ég held að Evrópusambandið muni krefjast að verði gerð ef við eigum nokkurn tíma að komast þangað inn. Við skulum ekki gleyma því heldur.

Það er fleira sem er undir í þeirri endurreisn sem er fram undan. Ég er þeirrar skoðunar, eins og sumir aðrir, að aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að málefnum Íslendinga sé orðin til skaða. Sjóðurinn er orðinn eins konar rukkunarbatterí fyrir þær þjóðir sem hafa völd innan sjóðsins. Ég held að kominn sé tími til, og einfaldlega orðin skylda ríkisstjórnarinnar, að velta upp plani B og koma Alþjóðagjaldeyrissjóðnum burtu, með hvaða hætti svo sem það yrði. Að við reynum að leysa okkar mál á skaplegri hátt, með ekki eins bröttum niðurskurði og lagt er til í plani Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, annars mun fara verr.

Ég hef í störfum mínum undanfarin ár, áður en ég kom inn á þing, starfað fyrir OECD að verkefnum í Afríku og ég þekki sögu þeirra þróunarríkja í Afríku sem nú eru fátæk. Þau byrjuðu öll á nákvæmlega sama hátt og á sama stað og Ísland er í dag. Þau voru of skuldsett og fengu hvergi lán, þau fengu aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ástandið varð verra og verra og verra vegna þess að allar tekjur ríkisins fóru í að greiða afborganir og vexti og síðar bara vexti því það var ekkert aflögu til að greiða neinar afborganir. Hvað var þá til ráða? Fjármagn til menntamála var skorið niður, fjármagn til heilbrigðismála var skorið niður, fjármagn til stoðverka var skorið niður, vegir eyðilögðust, raflínur eyðilögðust, símasamband eyðilagðist, smám saman urðu þessi ríki fátæk. Stórfyrirtæki komu inn og sögðu: Þið getið fengið nokkra milljarða dollara ef þið seljið okkur hluta af landinu. Þið getið þá borgað niður eitthvað af skuldunum eða þá minnsta kosti vextina.

Með þessu áframhaldi, frú forseti, mun Ísland fara sömu leið. Það er lengra fyrir okkur að fara en fátækari ríki Afríku vegna þess einfaldlega að við stöndum betur en skuldirnar sem við búum við eru hlutfallslega ekkert minni þannig að heildarstaðan er sú sama. Við munum ekki geta staðið undir því að borga 100 milljarða kr. á ári bara í vexti af skuldum, það er ekki hægt. Þess vegna hlýtur enn ein leiðin í endurreisninni að vera fólgin í því að viðurkenna stöðuna og óska eftir skuldaniðurfellingu eða einfaldlega lýsa yfir skuldaniðurfellingu einhliða. Það er ekkert einsdæmi í veraldarsögunni. Þær þjóðir sem hafa gert það hafa að öllu jöfnu skuldað miklu minna heldur en Ísland hlutfallslega. Náttúrlega varð allt brjálað þegar þær sögðu að þær mundu ekki borga allar sínar skuldir. Fjármálamarkaðir lokuðust eða buðu þeim afarkosti í tvö ár, kannski þrjú, en það er alltaf nóg til af kapítalistum sem þurfa að lána peninga og vandamálið var ekki til staðar nema í tvö eða þrjú ár. Þá var það gleymt. Það var gleymt vegna þess að fjármálamarkaðir hugsa fram á við en ekki aftur á bak og Íslendingar verða miklu betur til færir um að greiða skuldir sínar í framtíðinni ef þeir skulda minna heldur en ef þeir skulda meira. Óvenjulegt er fyrir evrópska þjóð að þurfa að fara þessa leið en ég tel að hún sé ein af þeim leiðum sem við verðum að fara til að ná endurreisninni á skrið.

Að endingu langar mig að beina því til forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar varðandi vanda heimilanna, því þar er vandinn mestur á Íslandi í dag, að nýta sér samtök sem heita Hagsmunasamtök heimilanna. Gríðarlega mikil og vönduð vinna er unnin innan samtakanna sem hafa mikinn áhuga á að leysa skilmerkilega úr vandanum sem heimilin standa frammi fyrir. Þau bjóða upp á mjög rökréttar og skýrar lausnir á vanda heimilanna sem ég hvet ríkisstjórnina til að nota við að reyna að leysa úr þessum vanda.