138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:29]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir ræðu hans. Komið hefur fram í fréttum að hann var mjög í annarri stöðu fyrir ári en á þessum degi er verið að rifja upp hina skelfilegu atburði sem áttu sér stað þegar bankakerfið fór á hliðina. Hann hafði spáð að bankarnir færu allir á hliðina fyrir ári. Sú spá gekk eftir og lét hæstv. ráðherra hafa það eftir sér í fjölmiðlum fyrir stuttu að hann hefði óskað þess að hann hefði ekki verið svo sannspár.

Þá langar mig til að spyrja ráðherrann, þar sem hann starfar nú sem viðskiptaráðherra í hæstv. ríkisstjórn. Hvað finnst honum um þær staðreyndir sem komu fram í máli hv. þm. Lilju Mósesdóttur áðan, að 75% af þeim fjárfestum sem áttu í peningamarkaðssjóðunum hafi verið fagfjárfestar eða einkahlutafélög, og að fyrir ári var tekin ákvörðun — að því er virðist út í loftið og án heimildar Alþingis sem fer með fjárlagavaldið — um að dæla þar inn tæpum 100 milljörðum kr.? Finnst ráðherranum þetta eðlilegt og hvaða lausnir sér hann nú á þessum vanda? Mínar heimildir segja að innrás sérstaks saksóknara í ákveðin endurskoðunarfyrirtæki fyrir skömmu hafi verið út af þessum málum.