138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:31]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekkert um ástæður þessarar innrásar sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir vísar til þannig að ég get ekkert um það sagt. Ég get reyndar ekki mikið sagt heldur um þær ákvarðanir sem voru teknar um útgreiðslur úr peningamarkaðssjóðum fyrir tæpu ári. Eins og kom fram í máli þingmannsins var það ekki á minni vakt þannig að ég þekki ekki forsögu þess. En ég treysti því að þeir aðilar sem nú fara yfir söguna, m.a. hvað fór úrskeiðis fyrir hrun og rétt eftir hrun, gæti að þessum peningamarkaðssjóðum, eins og reyndar mörgu öðru. Þeir athugi hvort rétt var að verki staðið og ef í ljós kemur að þarna hafi einhvers staðar verið pottur brotinn geri ég ráð fyrir að í ljós komi líka hverjir báru ábyrgð á því og að þeir verði þá dregnir til ábyrgðar ef því er að skipta.