138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er það fullljóst að hæstv. ráðherra ber ekki ábyrgð á aðgerðum fyrir ári enda kom það fram í máli mínu. Þá sat annar viðskiptaráðherra sem nú situr hér sem þingmaður. Ég hef verið hugsi yfir þessum málum undanfarna daga vegna þess að það virðist hafa verið gripið til aðgerða fyrir ári sem tæpast standast. Þetta var einhliða ákvörðun um að fara af stað og dæla inn í sjóðina peningum, sem virðast núna lenda á ríkissjóði vegna þess að eignirnar í sjóðunum voru stórkostlega ofmetnar.

Ég var að spyrja um álit hæstv. viðskiptaráðherra, þess sem situr í stólnum núna, hvort honum þyki ekki óeðlilegt að framkvæmdarvaldið hafi farið fram með þessum hætti? Tekin var einhliða ákvörðun um innspýtingu í þessa sjóði án þess að fara með það fyrir Alþingi en eins og ég sagði áðan fer Alþingi með ákvarðanir sem snerta útgjöld ríkisins — að við tölum nú ekki um þegar þetta er farið að skipta fleiri tugum milljarða.

Einnig langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra, þar sem hann telur að líklega komi í ljós hverjir báru ábyrgðina, hvort hann telji að um hugsanlegt skaðabótamál geti verið að ræða gagnvart þeim sem fengu útgreiðslu á kennitölu sína úr sjóðunum þegar búið var að dæla þessu fjármagni inn í þá. Telur ráðherrann að það geti hugsanlega verið um skaðabótasókn á hendur þeim að ræða og hvort þeir þurfi endurgreiða fjármagnið sem fór þarna inn?