138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:50]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sannarlega skal ég vera þjóðremba ef hv. þingmanni finnst ég vera þjóðremba, ég skammast mín ekki fyrir það. En það kemur því ekki við að hv. þingmaður talaði sannarlega niður krónuna og hann gerir það enn, sá ágæti þingmaður. Það er stefna Samfylkingarinnar að krónan sé vonlaus gjaldmiðill en líklega er það hún sem á eftir að bjarga okkur út úr þessari djúpu kreppu.

Í svari hv. þingmanns kom fram að hann hafi verið að fara yfir ýmis mál. Vissulega tók hann ágæta sögustund frá sínum sjónarhóli. Vissulega er ég ekki sammála honum því ég sat ekki við ríkisstjórnarborð í aðdraganda hrunsins. Þetta er hans sýn og mér finnst Samfylkingin ekki finna fyrir ábyrgð sinni í hruninu. Hún heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist og rekur enn sömu stefnu.

Ég vil benda hv. þingmanni á að þegar ákveðið var að dæla peningum inn í peningamarkaðssjóðina voru bankarnir orðnir ríkisbankar og ríkisbankar eru að sjálfsögðu á forræði framkvæmdarvaldsins í hverju ríki fyrir sig og þeirrar ríkisstjórnar sem þar situr. Við hrunið voru bæði Kaupþing og Landsbankinn teknir yfir af ríkinu og síðan einkabankinn Glitnir þannig að enginn banki er undanskilinn. Tekin var ákvörðun af ríkisstjórninni um að dæla þessum peningum inn í sjóði sem kemur í ljós að voru stórlega ofmetnir og þar munar 70–80 milljörðum sem bætist við skuldir ríkisins. Nú spyr ég hv. þingmann: Finnur hann ekki fyrir ábyrgð á að þetta var gert, nú þegar þetta kemur í ljós á eins árs afmæli hrunsins?