138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:03]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er gott að fá tækifæri til að ræða efnahagsmál og þá framtíðarsýn sem íslensk stjórnvöld þurfa að hafa. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég heyrði í hæstv. forsætisráðherra vegna þess að hún eyddi stærstum hluta ræðu sinnar, ef ekki allri ræðunni, í að tala um fortíðina og reyna að benda á það sem miður hefði farið. Í mínum huga erum við búin með þá umræðu og ég held að öll sjónarmið hafi komið fram.

Gerð voru mistök við einkavæðingu bankanna. En ný ríkisstjórn ætlar sér að setja bankana í söluferli. Það er staðreynd og menn eiga að læra af mistökunum sem gerð voru. Ég held að eftirlitið hafi brugðist og að flestir séu sammála um að þar liggi vandinn. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki tekið á vandanum. Samfylkingin hefur haft nokkur ár til þess að ráðast í breytingar.

Þegar við framsóknarmenn fórum úr ríkisstjórn eftir kosningarnar árið 2007 sögðum við strax við nýja ríkisstjórn: Gætið nú að. Það hefur verið þensla í landinu. Það má alls ekki auka þá þenslu. Við sögðum líka: Gætið þið að undirstöðunum í samfélaginu. Þær eru ekki nægilega traustar.

Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar komst til valda, byrjaði hún á því að hækka ríkisfjárlögin um 20%. Við gagnrýndum það og það var ekki vinsælt að stjórnarandstaðan segði að þetta væri aðgerð sem mætti alls ekki fara í. Hæstv. forsætisráðherra sagði að þá hefði Samfylkingin bætt kjör aldraðra og öryrkja. Vel getur verið að það hafi verið gert. En öll skref sem hafa verið stigin síðan hafa stórlaskað kjör aldraðra og öryrkja. Við framsóknarmenn byggðum upp heilbrigðiskerfi sem aftur og aftur fær þann dóm að vera ekki bara eitt það besta í heiminum heldur er það lofsvert að mati OECD og aðrar þjóðir ættu að taka sér það til fyrirmyndar.

Mig langar til að ræða framtíðina, leiðir sem ég tel að stjórnvöld eigi að fara. Hvaða leið er farin núna? Jú, prógrammi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er fylgt. Jafnvel þó að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bjóði upp á ágæt vaxtakjör þá setur hann skilyrði og þau helstu eru að við borgum Icesave-skuldirnar, þó að miklar líkur séu á því að við eigum ekki að gera það. Ég held að allir séu sammála um að í raun og veru virkar sjóðurinn eins og innheimtustofnun fyrir Breta og Hollendinga. Það gengur þvert á markmið sjóðsins og brýtur þau lög sem hann starfar eftir. Eigum við Íslendingar að sætta okkur við það? Svona á Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki að starfa og ef hann starfar svona þá höfum við Íslendingar ekkert með hann að gera. Við verðum að geta staðið uppréttir gagnvart þeim þjóðum sem við eigum í deilum við.

Í annan stað setur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þau skilyrði að hér verði ráðist í blóðugan niðurskurð. Gott og vel. Það er ágætt að draga saman seglin og eftir langt hagvaxtarskeið er þörf á því. En ekki gengur að fara jafnbratt í hlutina og nú er boðað í fjárlögum. Það mun stórskaða alla þjónustu í heilbrigðiskerfinu, velferðarkerfið og menntamálin. Ég held að menn verði að átta sig á því að ef til að mynda er skorið niður um eitt eða tvö störf úti á landsbyggðinni þá þýðir það í mörgum tilvikum að viðkomandi stofnun á svæðinu verður lögð niður. Mörg ár tekur að vinna slíkt upp aftur. Við verðum líka að átta okkur á því að jafnvel þó að niðurskurðurinn verði aðeins minni á næstu árum og horfurnar batni, förum við árið 2016 að borga af Icesave-skuldbindingunum og þær einar og sér safna milli 40 og 50 milljörðum í vexti bara á þessu ári. Þetta eru fjárhæðir sem við þurfum að borga árið 2016. Með öðrum, við sjáum fram á erfitt tímabil í nokkur ár en svo tekur við annað jafnerfitt tímabil. Í þessari mynd sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og núverandi stjórnvöld draga upp er hvergi að finna hvata fyrir fyrirtæki að starfa á ný, til að afla heimilunum tekna til að standa undir gríðarlegum skuldbindingum. Er sanngjarnt að þeir sem hafa þurft að koma sér upp þaki yfir höfuðið verði einir látnir borga fyrir endurreisn bankanna? Ég segi nei.

Við framsóknarmenn höfum sagt að mögulegt sé að Norðmenn vilji lána okkur, óháð láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Gert var lítið úr því í fréttum en ég vil ítreka þetta og leiðrétta misskilning vegna þess að einn flokkur af þremur í ríkisstjórn Noregs hefur sagt að hann vilji lána Íslendingum óháð Icesave og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þessi flokkur á sæti í ríkisstjórn og stendur nú í viðræðum um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf sem norskir fjölmiðlar telja afar miklar líkur á að verði. Framtíðarsýnin er þessi: Við verðum á einhvern hátt að losa okkur undan oki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er lífsnauðsynlegt fyrir Íslendinga. Um leið og það er gert geta menn staðið uppréttir í deilunni við Hollendinga og Breta og reynt að leysa hana á mannsæmandi hátt.

Hvað verðum við svo að gera? Að ráðast strax í að afnema gjaldeyrishöftin. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir atvinnulífið og nú tala ekki bara útflytjendur fyrir því að losa um þau heldur innflytjendur líka. Að sjálfsögðu verður að setja öryggisnet varðandi þá sem eiga enn þá háar innstæður í jöklabréfum en þá gerum við það einfaldlega. Þessi vandi okkar dýpkar og lengir kreppuna um mörg ár. Síðast en ekki síst verður að lækka stýrivexti. Af hverju talar ekki forsætisráðherra og beinir því til Seðlabanka að lækka stýrivexti? Ef stýrivextir væru færðir niður í 2% væri sú aðgerð stærsti liðurinn í að bjarga skuldsettum heimilum og fyrirtækjum í landinu.

Virðulegi forseti. Ég kalla eftir framtíðarsýn hjá núverandi ríkisstjórn. Það er skortur á framtíðarsýn sem stendur henni helst í vegi og veldur því kannski einn og sér að hún er að klofna í herðar niður.