138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Fyrir utan siðspillinguna, sem hefur trúlega verið það innanmein í okkar samfélagi sem helst orsakaði hrunið sem við minnumst nú, er trúlega ekki önnur orsök sterkari í hruni einstaklinga eða samfélaga en einangrunin. Það er ástæða til að dvelja ofurlítið einmitt við einangrunina núna þegar ár er liðið frá því að við upplifðum þessa miklu atburði í október árið 2008 því að sannarlega á það við um hrunið í okkar samfélagi eins og önnur hrun að þar lék einangrunin og sumpart einangrunarhyggja okkar sjálfra talsvert hlutverk í aðdragandanum.

Eins og við þekkjum gerðumst við á fyrri hluta síðasta áratugar aðilar að evrópska markaðnum, Evrópska efnahagssvæðinu, 500 millj. manna markaði og frjálsu flæði fjármagns, fólks og fyrirtækja um þann markað allan. Sakir okkar pólitísku ákvarðana og ákveðinnar einangrunarhyggju, held ég að megi kalla, kusum við þó að verða ekki hluti af því skipulagi sem var um þann markað. Við kusum að verða ekki aðili að eftirlitskerfinu, skrifræðinu og hinu pólitíska samstarfi yfir þeim markaði og verða ekki hluti af myntsamstarfinu og því seðlabankasamstarfi sem var á þeim markaði vegna þess að við Íslendingar vildum bókstaflega ekki taka þátt í þessu samstarfi. Við ætluðum bara að spila á markaðnum en taka ekki þátt í þeim margvíslegu samstarfsverkefnum sem unnið var að í tengslum við þennan markað. Það þótti okkur gefa býsna góða raun um sinn því auðvitað skilaði aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu miklum hagvexti og margvíslegum framförum í viðskiptalegum efnum.

Reynsla okkar í gegnum aldirnar sýnir að frjáls verslun og viðskipti hafa alltaf verið smáríkjum til farsældar fallin en einangrun hvers konar verið upphafið að ógæfu okkar hverju sinni. Þessu fengum við síðan að finna býsna vel fyrir þegar að herti. Þessi ákvörðun okkar um að taka ekki þátt í samstarfinu í kringum evrópska markaðinn, í hinu pólitíska samstarfi, myntsamstarfinu, seðlabankasamstarfinu og margvíslegu öðru samstarfi, gerði að verkum að þegar harðnaði á dalnum reyndumst við vera býsna einangruð. Í raun og veru var það einangrunin sem orsakaði mun harðari lendingu hjá okkur en ella hefði orðið.

Við skynjuðum þessa einangrun býsna vel í aðdraganda kreppunnar árið 2006 þegar margvísleg umfjöllun um Ísland var neikvæð og við reyndum að sannfæra aðrar þjóðir um að hún væri á misskilningi byggð. Menn gripu sannarlega til ráðstafana til að reyna að gera ýmsar betrumbætur á því fyrirkomulagi sem við höfðum komið okkur upp en þegar hin alþjóðlega fjármálakreppa hófst árið 2007 fundu menn náttúrlega að íslensk fyrirtæki misstu fjármögnun á erlendum vettvangi. Þau höfðu ekki annað að leita en hingað heim þar sem íslensku viðskiptabankarnir stóðu kannski ekki frammi fyrir mörgum góðum valkostum, annaðhvort að taka að sér fjármögnunina eða láta fyrirtækin fara. Íslensk stjórnvöld fóru þá land úr landi, bónarveg að hverri þjóðinni á fætur annarri og óskuðu eftir fjárhagslegum stuðningi, liðveislu í erfiðum aðstæðum og fengu hvarvetna afsvar. Ég hygg að í hverri viku hafi menn upplifað hversu einangrað landið var á alþjóðavettvangi því það skipti engu máli hvar knúið var dyra, hvergi var stuðning að fá. Við vorum, að sumu leyti sjálfvalið, algerlega einangruð. Sú örvænting sem þetta skóp leiddi á endanum til þess sem enginn maður hefði trúað fyrir og við reynum trúlega flest að gleyma í dag að menn freistuðu þess jafnvel að fá gríðarstórt lán frá Rússum. Það hefði auðvitað gert okkur algerlega háð því ríki í fjárhagslegu tilliti miðað við þær stærðir sem þar var talað um. Slík var einangrun okkar orðin og staða okkar slæm að menn freistuðust jafnvel til þessa, að reyna eina gríðarlega mikla fyrirgreiðslu frá ríki sem hefur ekki verið í hópi okkar nánustu bandalagsþjóða, a.m.k. ekki hin síðari ár.

Fyrir ári síðan fundum við hvað harðast hve einangrun okkar var orðin mikil þegar hér var einfaldlega orðin spurning um grundvallaratriði í því að reka samfélag, vörur og aðra aðdrætti til landsins. Sem betur fer tókst með ótrúlegri elju fjölda fólks í stjórnsýslunni að forða því versta í þeim efnum en það var þessi alþjóðlega einangrun sem við fundum svo glöggt fyrir ári. Ég held að við þurfum að minnast hennar býsna vel vegna þess að hún skiptir máli fyrir það hvernig við ætlum að byggja þetta samfélag upp aftur. Það er ástæðan fyrir því að við eigum að leggja höfuðáherslu á að rjúfa einangrun okkar og byggja upp sterk og virk tengsl við löndin í kringum okkur og þar höfum við sannarlega verk að vinna. Þess vegna eigum við að gæta þess að þó að það sé auðvelt að gleyma eigin mistökum og finna okkur sameiginlega óvini í útlöndum til að sameinast um að vera á móti, hvort sem þeir heita Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Evrópusambandið, Norðmenn eða öðrum nöfnum sem við notum fyrir vonda menn í útlöndum nú til dags, megum við ekki falla í þá freistingu. Einmitt núna er grundvallaratriði fyrir endurreisn okkar og uppbyggingu þessa samfélags að við eflum og styrkjum allt okkar alþjóðlega samstarf á næstu árum og áratugum og vinnum að endurreisninni, ekki í afneitun á þeim veruleika sem við stöndum andspænis, alþjóðlegri einangrun Íslands, heldur með því að viðurkenna þá stöðu og vinna okkur út úr henni í samstarfi við aðrar þjóðir.

Við erum auðvitað vonsvikin yfir ýmsu sem við höfum þurft að upplifa. Við höfum til að mynda verið vonsvikin yfir því að sú ágæta samstarfsáætlun sem við höfum haft við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafi ekki verið tekin fyrir enn. Við erum auðvitað sannfærð um og vitum að það er fullkomlega ósanngjarnt að til þess sé ætlast af okkur að við sem þjóð berum allar þær miklu skuldbindingar sem einkafyrirtæki stofnuðu til og hafa nú lent á okkur. Það breytir því ekki að við þurfum að leysa úr þeim efnum í samstarfi við aðrar þjóðir til að rjúfa einangrun okkar, vegna þess að því aðeins verðum við aftur virkir þátttakendur á markaði, getum skapað aðstæður til að leggja niður höft á gjaldeyrismarkaði og skapað aðstæður til að lækka vexti og draga að alþjóðlegt fjármagn til uppbyggingar atvinnu. Því aðeins getum við skapað skilyrði (Forseti hringir.) til frjálsrar verslunar og viðskipta við önnur lönd sem eru forsenda þeirrar hagsældar sem við stefnum að.