138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Enn og aftur, það er lærdómsríkt að horfa á reynslu Íra, sem voru og eru í ESB, búa við það regluverk sem þar er við lýði og lentu í þeim ósköpum að þurfa að gera það sem ég lýsti áðan, sem sé að tryggja allar innstæðurnar og allar skuldirnar bankanna. Ef þeir hefðu ekki gert það eru allar líkur á því að allt írska bankakerfið hefði komið niður með brauki og bramli (TÞH: Það er ekki útséð með það.) og ekki útséð með það enn.

Þau dæmi sem ég nefndi voru talin upp til að benda á að það er ekki séríslenskt fyrirbæri að bankakrísa verði. Og að halda því fram að hér á Íslandi hafi það bara verið vegna þess að brjálaðir frjálshyggjumenn voru við völd, sömu brjáluðu frjálshyggjumennirnir og juku ríkisútgjöldin um 30% að raunvirði, ég held að sú skoðun standist ekki, ekki þegar menn horfa á þetta í svolítið stærra samhengi. Það sem aftur á móti stenst og skiptir máli er að gerð voru þau mistök á Íslandi að leyfa bankakerfinu að verða 10–12 sinnum stærra en íslenska hagkerfið. Það voru mistök. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið mistök að ganga þannig frá hnútum við einkavæðingu bankanna að sú staða gæti myndast að einstakir eigendur bankanna gætu um leið haft þá hagsmuni sem þeir höfðu svo sannarlega á hlutabréfamarkaði. Ég held að það sé nokkuð sem við getum virkilega lært af.

Hvað varðar síðan eftirfylgnina með reglunum þá bjuggum við líka við alþjóðlegt kerfi hvað það varðaði, þ.e. hvernig þessum reglum væri fylgt eftir. Íslenska fjármálaeftirlitið, rétt eins og það breska og önnur fjármálaeftirlit, vinnur samkvæmt ákveðnum stöðlum. Það breytir ekki því að það er greinilegt bæði á íslenska fjármálaeftirlitinu og því breska og því hollenska, af því að það eru mál sem okkur eru skyld í gegnum Icesave-reikningana, alveg greinilegt að þar hafa menn misst af, ekki bara íslenska fjármálaeftirlitið heldur líka það breska og það hollenska. Og það virðist vera þannig að menn séu sammála um að við eigum að bera allan hallann af því að þau fjármálaeftirlit hafi misst allt saman niður um sig.