138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum um efnahagshrunið og endurreisnina. Mér finnst þetta vera dálítið of snemmt, frú forseti, vegna þess að eftir sex vikur eigum við von á skýrslu frá rannsóknarnefnd Alþingis sem mun skjóta miklu styrkari stoðum undir svona umræðu en í sjálfu sér er þetta góð umræða.

Í nóvember hélt ég fyrirlestur þar sem ég reyndi að greina hvað fór úrskeiðis og ég sá 12 ástæður. Tvær hafa bæst við síðan sem ég sé. Ef ég fer rétt í gegnum þessar 12 ástæður þá eru fimm innlendar og aðrar erlendar.

1. Íbúðalánasjóður jók hámark íbúðalána upp í 90%. Það kallaði fram samkeppni bankanna og lægri vextir þýddu hækkun íbúðarverðs og eignaverðs almennt og það þýddi verðbólgu og þenslu.

2. Peningastjórnun Seðlabankans olli innstreymi fjár, svokallaðra jöklabréfa, sem hækkaði gengi krónunnar, kom á útsölu á erlendum vörum, sérstaklega bílum, flatskjám og ferðalögum, og jók þenslu í staðinn fyrir að slá á hana.

3. Fjármálaeftirlitið var allt of veikt. Þó að fjárframlög til þess hafi verið aukin á hverju einasta ári þá var það einfaldlega þannig að bankarnir keyptu upp besta fólkið í Fjármálaeftirlitinu. Það stóðst ekki samkeppni um mannskap. Þessu gættu menn ekki nægilega vel að.

4. Skattar voru lækkaðir. Tekju-, eignar- og erfðafjárskattar voru lækkaðir, skattar á hagnað fyrirtækja voru lækkaðir. Menn sögðu að þetta væri slæmt en, frú forseti, var þetta skattalækkun? Þetta var nefnilega ekki skattalækkun vegna þess að tekjustofnarnir, skattstofnarnir stækkuðu svo mikið að tekjur ríkissjóðs af þessum sköttum stórjukust. Nú er það spurning: Er það skattahækkun á fyrirtæki þegar þau borga meira? Er það skattahækkun á fyrirtæki eða skattalækkun á fyrirtæki þegar prósentan lækkar? Ég held því fram að það sé krónutalan sem þau borga sem eru álögur á fyrirtækin en ekki prósentan. Þetta var í rauninni allt saman skattahækkun, líka erfðafjárskatturinn sem stórjók tekjur ríkissjóðs, sú mikla lækkun á prósentu.

Svo kem ég að erlendu þáttunum. Ég ætla að geyma einn innlenda þáttinn þar til síðast, það er krosseignarhald sem ég nefndi sem eykur eigið fé hlutafélaga, sem eykur völd stjórnanna og eykur arð. Þetta er sjúkdómseinkenni um allan heim og ekki síst í Japan og í Þýskalandi. Margföldun innlána í bönkunum þar sem bindiskyldan á að hemja margföldun fjármagns en hún gerir það ekki. Hún þyrfti að vera miklu miklu hærri, þyrfti að vera svona 20–30% til að hemja þá þekktu margföldun á peningum.

7. Þá eru það framvirkir samningar. Ég minni t.d. á framvirka samninga á olíu. Menn geta farið inn á netið og keypt olíufat þar og selt það, framvirkt. Sama fatið er sennilega selt 10 þúsund sinnum. Þetta gerir það að verkum að markaðurinn er gersamlega óháður framboði og eftirspurn heldur eingöngu háður þessum framvirku samningum. Þetta er stórhættulegt en alþjóðlegt vandamál.

8. Síðan er það innlánstryggingarkerfi Evrópusambandsins sem er meingallað og meira að segja sú lausn sem Evrópusambandið og Bretar og Hollendingar eru að neyða upp á Íslendinga er andstæð Evrópusambandinu. Kaupþing fær ekki sambærilega ríkisábyrgð á sín innlán og Landsbankinn á að fá. Það er andstætt Evrópusambandinu þannig að við gætum hugsanlega verið kærð fyrir samninginn sem við gerum við Breta og Hollendinga fyrir EFTA-dómstólnum. Ég ætla ekki að fara nánar út í það, það er löng saga og mikil. En það þarf að sjálfsögðu að vera einn innlánstryggingarsjóður fyrir alla Evrópu. Það þarf að vera forgangur innlána í þrotabú fjármálastofnana og þessi eini sameiginlegi innlánstryggingarsjóður þarf að hafa eftirlit með vexti innlána.

9. Gífurlegt fjármagnsflóð á markaði, lágir vextir og mikil áhættusækni olli því að íslensku bankarnir fengu gífurlegar fjárhæðir að láni.

10. Alþjóðleg vandamál, fjármálakreppan, áhættufælni og allt í einu dróst þetta saman, Lehman Brothers hrundu og þar með fór Glitnir og það hafði dómínóáhrif á Íslandi.

11. Þessu fylgir öllu sama ástæða sem var alþjóðleg; áhættugleði sem var og síðan hrundi allt saman þegar vextirnir hækkuðu.

12. Svo ætla ég að síðustu að nefna tólftu ástæðuna sem er innlend og það er landlæg eyðsla og eyðslugleði, svo maður tali ekki um eyðslugræðgi og lítill sparnaður. Núna tölum við ekkert um sparifjáreigendur, við erum alltaf að tala um skuldara vegna þess að athygli þjóðarinnar beinist eingöngu að neyslunni og skuldum en ekki að sparnaði og þeirri dyggð sem felst í því að sýna ráðdeildarsemi.

Síðan hafa komið fram upplýsingar um gífurlegar lánveitingar til stærstu hluthafa, fyrirtækja á Íslandi, stórhættulegt öðrum hluthöfum, og til starfsmanna til kaupa á hlutabréfum. Þegar litið er á fjármagnsstraumana var það þannig að þetta er þýskt sparifé að einhverju leyti, austurrískt og evrópskt sem streymdi til Íslands og aftur beinustu leið til Bretlands, Finnlands og annarra landa í kaupum á fyrirtækjum þar, áhættusömum kaupum í gegnum íslensku bankana. Þetta fé stoppaði ekkert á Íslandi.

Þetta er vandinn og það er spurning hver ber ábyrgð á þessu öllu saman. Ég er búin að taka mína ábyrgð á þessu öllu saman, ég gerði það 30. október og baðst þá afsökunar á þessu eða þeim þætti sem ég átti í þessu en það eru margir sem komu að þessu.

Niðurstaðan er að við vorum með allt of stórt og óstöðugt bankakerfi og afleiðingin var eignahrun hlutabréfa, íbúða, gjaldþrot, dómínóáhrif og atvinnuleysi og það er langsamlega alvarlegasti þátturinn.

Þá ætla ég að koma að endurreisninni. Við þurfum að breyta atvinnuleysingjum í skattgreiðendur. Það er nr. eitt, tvö og þrjú, af alefli því að hver maður sem tekur atvinnuleysisbætur kostar ríkissjóð 2 millj. á ári en ef hann er skattgreiðandi þá gefur hann ríkissjóði, með öllum sköttum sem hann borgar, bæði tekjuskatti, virðisaukaskatti o.s.frv., 2 millj. þannig að það eru 4 millj. á hvern einasta mann. Ef við breytum 5.000 atvinnuleysingjum í skattgreiðendur þá þýðir það 20 milljarða betri stöðu ríkissjóðs. Við þurfum að virkja, við þurfum að virkja aftur og við þurfum að auka kvóta. Við þurfum að auka atvinnu eins og mögulegt er, hvar sem er. Síðan þurfum við að skattleggja lífeyrissjóði. Við höfum sagt það. Ég hef stungið upp á því að skattleggja séreignarsjóðina sérstaklega vegna þess að þeir eru sér á báti þannig að fé inni í séreignarsjóðunum sem nú hefur ekki verið skattað verði skattað í eitt skipti fyrir öll og síðan verði útgreiðslur skattfrjálsar.

Þá þurfum við að örva atvinnulífið. Við þurfum að lækka skatta, við þurfum að lækka vexti, við þurfum að setja lög um að stýrivextir verði 3% og innlánsvextir í Seðlabankanum verði 3% til að galdra fram það mikla fjármagn sem er inni í bönkunum þannig að það fari út í atvinnulífið. Það eru gífurleg innlán í bönkunum sem gagnast atvinnulífinu ekki neitt og þessu þurfum við að breyta.

Við þurfum líka að skoða afslátt við hlutabréfakaup og við þurfum að byggja upp traust á atvinnulífinu með gagnsæjum hlutafélögum. Við þurfum að styrkja sérstakan saksóknara til að það sé alveg á tæru að menn brjóti ekki lög í atvinnulífinu. Við þurfum að afnema gjaldeyrishöftin. Ég held að það sé hægt með því að gera sérstaka samninga við eigendur jöklabréfa, með því að gefa út evrubréf til langs tíma með einhverju álagi ofan á þýska vexti.

Síðan þurfum við að segja bless við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna þess að hann er að kúga okkur til að taka á okkur skuldbindingar sem eru miklu meiri en það sem við græðum á honum. Ef við eigum að taka á okkur Icesave vegna hans þá er hann farinn að kosta okkur ansi mikið. Og ef við getum ekki afnumið gjaldeyrishöftin og lækkað stýrivexti þá er hann líka farinn að kosta okkur mikið. Við þurfum því að velta því fyrir okkur hvort yfirleitt sé ástæða til að hafa hann hér á landi.

Ég ætla ekki að ræða drög að fjárlagafrumvarpi eða stefnu ríkisstjórnarinnar. Hún ætlar að halda áfram að skattleggja laskað atvinnulíf og laskaðar fjölskyldur og hún ætlar að skattleggja sparnað og atvinnu og sérstaklega orkuverin. Það er ekki það sem við þurfum á að halda. Við þurfum að hvetja fyrirtækin og sparendur til dáða. Ég lít á verkefnið með fjárlagafrumvarpið eða drög að fjárlagafrumvarpi sem verkefni Alþingis. Við þurfum að taka á því eins og við tókum á Icesave-málinu, allir hv. þingmenn sameiginlega. Við eigum öll að leysa þetta verkefni og ég skora á hv. þingmenn að líta þannig á verkefnið fram að jólum.