138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

umgjörð Icesave-samningsins.

[13:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra út í ummæli þau sem hæstv. forsætisráðherra viðhafði hér fyrir tveim dögum síðan í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Þá sagði hæstv. ráðherra, þegar verið var að ræða Icesave, með leyfi forseta:

„Það er ekki réttlátt að Bretar og Hollendingar hreinsi hendur sínar af því að þeirra eigin fjármálaeftirlit hafi brugðist, ekki síður en okkar, í Icesave-málinu og það er afar ósanngjarnt að þeir skuli torvelda samstarf Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“

Við höfum rætt þessi mál á þinginu, við gerðum það nánar tiltekið í sumar. Þetta er í fyrsta skipti sem þetta kemur fram hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar mér vitanlega, að þeir séu komnir á þessa skoðun sem talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa hins vegar haldið fram síendurtekið í umræðunni. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur talað mjög skýrt gegn þessum sjónarmiðum og fór mjög vel í gegnum það bæði í fjölmiðlum og í þinginu að þetta væri séríslenskt mál og við bærum á þessu alla ábyrgð. Ég vil ekki auka á stjórnarkreppuna, virðulegi forseti, en ég vil samt sem áður spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann sé sammála hæstv. forsætisráðherra hvað þetta varðar. Þetta er mjög skýrt hjá hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra segir: Löggjöfin eða tilskipunin í Evrópusambandinu er gölluð. Hæstv. forsætisráðherra segir að fjármálaeftirlit Breta og Hollendinga hafi brugðist í þessu máli.

Virðulegi forseti. Ég fer þess á leit við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að hann svari því skýrt hvort hann sé sammála hæstv. forsætisráðherra hvað þetta varðar.