138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

umgjörð Icesave-samningsins.

[13:45]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrirspurnina. Það fer auðvitað ekki fram hjá neinum, hvort sem hann fylgist með vandræðaganginum hér á Íslandi eða alþjóðlega fjármálamarkaðinum, að menn eru almennt sammála um að umgjörð fjármálakerfisins, ekki bara á Íslandi heldur um heim allan og þar á meðal í Evrópusambandinu, hefur brugðist. Bankamenn hafa brugðist, fjármálaeftirlit hafa brugðist, stjórnmálamenn hafa brugðist og sá lagarammi sem stjórnmálamenn hafa sett hefur brugðist. Um það er ekki deilt. Það er heldur ekki um það deilt að það fellur gríðarlegur kostnaður á ýmsa skattborgara margra ríkja, ekki bara Íslands heldur nánast allra ríkja sem teljast til vesturvelda vegna þessa. Það liggur líka fyrir að reikningurinn sem Íslendingar þurfa að bera vegna þessa verður ansi þungur. Það er hins vegar ekki svo að hann verði endilega sá þyngsti sem allir bera því að við verðum að hafa í huga að meðan aðrar þjóðir hafa varið mörgum prósentum, jafnvel tugum prósenta af landsframleiðslu, til að bjarga fjármálakerfum sínum á kostnað skattborgara gerðum við það ekki. Við sitjum hins vegar uppi með reikning sem tengist þessum Icesave-reikningum og reyndar ýmsa aðra reikninga vegna þess sem miður fór á undanförnum árum.

Það má endalaust deila um hvað er sanngjarnt og hvað er ósanngjarnt varðandi hvernig þessum reikningum er skipt. Við þurfum að hafa í huga að Bretar og Hollendingar borga um það bil helminginn af þeim kostnaði sem til fellur vegna Icesave-reikninganna. Sú staðreynd virðist gleymast mjög oft í umræðum á Íslandi en það er nú samt svo að þannig skiptist reikningurinn. Hvort þau skipti eru sanngjörn eða ekki getur raunar hver haft sína skoðun á. Auðvitað viljum við að hlutur Íslands verði sem minnstur og munum berjast fyrir því en við getum ekki tekið á okkur að vera einhver stóridómur um það hvað er sanngjarnt og hvað er ósanngjarnt.