138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

umgjörð Icesave-samningsins.

[13:48]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur margítrekað í ræðustól haldið því fram að ég sé einhver sérstakur talsmaður Breta og Hollendinga að verja málstað þeirra. Því verð ég að mótmæla eins kröftuglega og ég get og það er ekki hægt að finna nein dæmi um það, hvorki í þingsögunni né öðrum ummælum sem ég hef látið eftir mér hafa, að ég hafi sérstaklega varið málstað þeirra. Það sem ég hef hins vegar gert er einfaldlega að benda á staðreyndir málsins. Staðreyndir málsins eru þær m.a. að alþjóðlega fjármálakerfið var gallað og fjármálaeftirlit í mörgum löndum brugðust, þar á meðal hið íslenska. Við getum ekki litið fram hjá því að það brást margt á Íslandi. Við getum ekki skellt allri skuldinni vegna þess sem fór úrskeiðis á eitthvert gallað regluverk. Ef það hefði verið, til hvers værum við þá með allar þær rannsóknir sem nú eru í gangi? Ef niðurstaðan lægi fyrir og hér hefði allt verið í himnalagi, þar á meðal hjá Landsbankanum og stjórnendum hans, (Gripið fram í.) til hvers værum við þá að kanna og rannsaka hvað fór úrskeiðis? Liggur bara fyrir að hér var allt í himnalagi, hv. þingmaður?