138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

Icesave og EES-samningurinn.

[13:52]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra hreinskilið svar og er honum að mestu leyti sammála því að nú virðast spunameistarar Samfylkingarinnar vera komnir af stað enn einu sinni með þá stefnu að viðhalda hræðsluáróðri sem þeir eru best þekktir fyrir eins og þeim að EES-samningurinn sé í uppnámi. Þar sem fyrst mundi reyna á þetta ákvæði, ef EES-samningurinn væri í uppnámi, væri fyrst og fremst í neyðarlögunum, þau brjóta raunverulega gegn EES-samningnum. Ég gæti trúað því að Alþingi mundi frekar fella þau úr gildi en að fella EES-samninginn úr gildi því að neyðarlögin eru fyrst og fremst þannig að þau gera upp á milli þjóðerna. Í kjölfarið voru sett á gjaldeyrishöft þannig að það er ekkert frjálst flæði fjármagns á milli landa. Því spyr ég ráðherrann, fyrst hann telur EES-samninginn ekki í hættu: Telur hann að atburðarásin sem fer á stað eftir að fjármálaráðherra kemur heim (Forseti hringir.) geti leitt til þess að neyðarlögin verði felld úr gildi vegna þess að þau gera upp á milli þjóðerna?