138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

Icesave og EES-samningurinn.

[13:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég hef enga kristalskúlu til að geta séð inn í framtíðina, ekki einu sinni til kl. 6 í dag þegar hæstv. fjármálaráðherra er heim kominn. Það er ekkert sem bendir til þess að heimkoma hæstv. fjármálaráðherra frá Istanbúl tengist með einum eða neinum hætti fyrirhuguðu afnámi neyðarlaganna. Ég tel að svo sé ekki. Það er svarið við spurningu hv. þingmanns.

Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir að aðgerðir sem við gripum til í fyrra þóttu umdeilanlegar en menn kynntu þær með réttum hætti gagnvart þar til bærum yfirvöldum eins og fyrir er mælt um í lögum og reglum sem við höfum undirgengist. Það kom því engum í sjálfu sér á óvart, og ég get svo sem upplýst hv. þingmann líka um það því að ég sat í þeirri ríkisstjórn sem þá var við völd og hv. þingmaður hefur nokkrum sinnum gert að umræðuefni, að þetta var skoðað. Það eru ekki bara Íslendingar sem hafa brugðist með þessum hætti við alvarlegri kreppu sem þeir standa andspænis. En svo bíðum við bæði spennt eftir því að hæstv. fjármálaráðherra komi.