138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

skattlagning orkusölu.

[13:57]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Kr. Guðfinnssyni fyrir spurninguna sem lýtur að raforkuverði í landinu. Þegar hin nýju raforkulög voru innleidd, að mig minnir 2003, og eins hin nýja raforkutilskipun Evrópusambandsins um að taka upp markaðsbúskap í raforku, í bæði vinnslu og sölu raforku, varaði ég mjög við því og greiddi atkvæði gegn því. Ég taldi að það lagaumhverfi sem væri við hæfi í 300 millj. manna samfélagi úti í Evrópu passaði alls ekki hér. Hér höfum við litið svo á að raforkan sé hluti af grunnþjónustu fyrir atvinnulíf, byggð og heimili í landinu. Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson greiddi atkvæði með þessum raforkulögum á sínum tíma. Þau hafa leitt til þess m.a. að raforkuverð til hinna ýmsu atvinnugreina hafa hækkað, t.d. til fiskeldis sem hv. þingmaður vitnaði vegna viðtals við mig í Morgunblaðinu í morgun. Ég heimsótti fiskeldisstöðina Silfurstjörnuna í Öxarfirði og þar var mér tjáð að einingarverð á raforku hefði hækkað um 270% frá árinu 2003.

Við þekkjum líka umræðuna um garðyrkjuna, eins og hv. þingmaður kom inn á, þar sem endurskipulagning og endurskipan sem varð á raforkukerfi landsmanna með orkulögunum, raforkulögunum frá þeim tíma hafði bein áhrif á greinina. Ég er þeirrar skoðunar að grunnatvinnuvegir landsmanna, eins og sjávarútvegur, garðyrkja, fiskeldi og ferðaþjónusta, eigi að hafa aðgang að rafmagni á jafnræðisverði (Forseti hringir.) eins og hv. þingmaður minntist á varðandi stóriðjuna. Á að gera þarna upp á milli atvinnugreina? Ég segi nei. (Gripið fram í: Ég segi nei líka.)