138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

nýting orkulinda til orkufreks iðnaðar og stöðugleikasáttmálinn.

[14:09]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Tilgangur umræðunnar sem hér er hafin er að þingmenn, og þá ríkisstjórnin sérstaklega, nái að átta sig á stöðu fjárfestingarverkefna og greiða götu þeirra á næsta ári til þess að Ísland nái að vinna sig út úr kreppunni með því að efla hagvöxt og auka atvinnu, samanber ákvæði stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera frá 25. júní sl. Þeir sem að stöðugleikasáttmálanum standa hafa mjög skamman tíma til stefnu þar sem skýrar línur þurfa að liggja fyrir um framkvæmd verkefna eigi síðar en 27. október þegar reyna mun á endurskoðunar- og framlengingarákvæði kjarasamninga og framhald stöðugleikasáttmálans. Tekið skal fram að enn er ólokið viðræðum við lífeyrissjóði landsmanna um aðkomu þeirra að fjármögnun verkefna. Viðræðunum átti að ljúka fyrir mánuði síðan og enn sér ekki til lands.

Meginmarkmið stöðugleikasáttmálans er að aðilar sáttagerðarinnar sameinist um aðgerðir til að vinna þjóðina út úr vandanum sem við er að glíma, stuðla að endurreisn efnahagslífsins með því að styrkja stöðu heimilanna, verja undirstöður velferðarkerfisins, standa vörð um menntakerfið og verja störf jafnt á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera eins og aðstæður frekast leyfa.

Til að ná fyrrgreindum markmiðum sameinuðust aðilar sáttmálans m.a. um framkvæmdir til að stuðla að aukinni atvinnu.

Í 4. tölulið sáttmálans segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda, sbr. þjóðhagsáætlun, svo sem framkvæmda vegna álvera í Helguvík og Straumsvík. Undirbúningsvinnu verði hraðað vegna áforma sem tengjast fjárfestingu í meðalstórum iðnaðarkostum, svo sem gagnaverum og kísilflöguframleiðslu. Kappkostað verður að engar hindranir verði af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009.

Einnig verði unnið skipulega að úrvinnslu áforma um aðrar stórfjárfestingar í atvinnulífinu þannig að taka megi ákvarðanir sem fyrst um hugsanlegan framgang þeirra.“

Það er samdóma álit flestra þeirra sem að gerð þessa sáttmála komu að ríkisstjórn Íslands hafi með háttalagi sínu á síðustu vikum beinlínis gengið gegn sáttinni sem gerð var í þjóðfélaginu um þessi efni. Boðaðar skattahækkanir í fjárlagafrumvarpinu og dæmalausar stjórnsýslutafir beinast með afar einbeittum hætti gegn öllum áformum um erlenda fjárfestingu í landinu og ganga þvert á markmið stöðugleikasáttmálans.

Orkufyrirtæki og sveitarfélög á Norðurlandi hafa undanfarin 20 ár leitað samstarfs við fyrirtæki um uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Fyrir fjórum árum náðust samningar við fyrirtækið Alcoa um samstarf um byggingu álvers á Bakka við Húsavík. Ómældum tíma og gríðarlegum fjármunum hefur verið varið í verkefnið. Ríkisstjórnin telur ekki lengur ástæðu til að hafa mögulegan orkukaupanda inni í viljayfirlýsingu vegna orkunýtingar á Norðausturlandi. Þar eigi þess í stað að gera eitthvað annað, sem enginn getur upplýst hvað er. Gríðarleg óvissa var sköpuð um byggingu álvers í Helguvík þegar umhverfisráðherra ákvað að bregða fæti fyrir verkefnið og fleiri orkufrekar framkvæmdir á Suðurnesjum. Í uppnámi eru áætlanir um stækkun álþynnuverksmiðju við Krossanes á Akureyri og stækkun álversins í Straumsvík. Fyrirtækið Elkem er einnig að leggja drög að sólarkísilframleiðslu. Þrír staðir koma þar til greina, Kanada, land í Asíu og Ísland. Þar yrði um að ræða 350 manna vinnustað.

Framganga ríkisstjórnarinnar og fyrirætlanir um sérstaka skattlagningu á orkufrekan iðnað setja fyrrgreind áform öll í uppnám. Ég vil líka nefna að boðuð fyrning aflaheimilda, eða innköllun fiskveiðiheimildanna, sem hefja á 1. september 2010 drepur í dróma frumkvæði og sköpunarkraft í sjávarútvegi landsins. Mjög alvarlegur afturkippur er þar af leiðandi kominn í fjárfestingu í atvinnulífinu og í nýrri þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir samdrætti á næsta ári. Ef sú verður raunin mun margt annað bresta. Af þeim spilum sem ríkisstjórnin hefur sýnt á síðustu vikum er ljóst að hún er bara með hunda á hendi og vill spila nóló — þegar annað er í boði.

Til þess að vinna þjóðina út úr þeim efnhagsþrengingum sem yfir hana ganga verður að fá fjárfestingu inn í hagkerfið strax á næsta ári. Aðeins þegar það hefur gerst er mögulegt að ná í aukna skatta. Er nema von að spurt sé hvort skjaldborginni sem ríkisstjórnin ætlaði að reisa sé fremur ætlað að verja pólitíska helför vinstri stjórnarinnar en heimilin í landinu?