138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

nýting orkulinda til orkufreks iðnaðar og stöðugleikasáttmálinn.

[14:29]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu efni hér á Alþingi. Hér hefur verið rætt um stöðugleikasáttmálann, að hann sé í uppnámi vegna þess að ríkisstjórnin sýnir af sér mikla linkind í þessum málum. Ég legg áherslu á að þessi mál komast ekki á rétt ról hér á landi fyrr en iðnaðarráðuneytið verður lagt niður og sameinað ráðuneyti sett á stofn sem mundi kallast auðlinda- og umhverfisráðuneyti. Eins og málin standa núna veit hægri höndin ekki hvað sú vinstri gerir, samanber atburði síðustu vikna þar sem umhverfisráðherra sló „trekk í trekk“ á puttana á iðnaðarráðherra og iðnaðarráðherra gerði það sama við Norðlendinga og fleiri. Þessi mál eru því í fullkomnu uppnámi hjá þessari ríkisstjórn enda kannski ekki nema von þegar litið er á samsetningu ríkisstjórnarinnar. Annar flokkurinn sem þar er innbyrðis vill hvorki standa að stóriðjuframkvæmdum né uppbyggingu á álverum eða annarri stóriðjustarfsemi.

Það sem gleymist mjög oft í þessari umræðu þegar verið er að tala um orkufrekan iðnað er það vandamál sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð þar sem umhverfisráðherra afsalaði sér fyrir hönd þjóðarinnar einum 15 milljörðum á því tímabili sem Kyoto-bókunin nær yfir. Það á ekki að sækja um og fylgja eftir því að við eigum þær loftslagsheimildir áfram sem við höfum fengið að nota. Þeim verður afsalað 31. desember 2012, þá verður málið í algjöru uppnámi.

Því langar mig til að kasta hér fram spurningu til iðnaðarráðherra, því að hún á eftir að tala aftur í umræðunni: Hvað hefur iðnaðarráðherra hugsað sér að gera þar sem hún er mjög hlynnt stóriðjuuppbyggingu af ýmsu tagi? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að framfylgja því að við endurheimtum þær losunarheimildir sem við höfum nú þegar til ráðstöfunar í gegnum Kyoto-bókunina?