138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

nýting orkulinda til orkufreks iðnaðar og stöðugleikasáttmálinn.

[14:31]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mér hefur þótt heldur dapurlegt að hlusta á talsmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í þessari umræðu (Gripið fram í.) fara með þann málflutning sem þeir hafa fram að færa í þessu efni. Það sem einkennir málflutning þeirra er afturhvarf til fortíðar, það er málflutningurinn sem hér er haldið á lofti af hálfu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. (Gripið fram í.) Þeir vilja greinilega hverfa aftur til þess tíma, fyrir 2007 og lengra aftur e.t.v., þegar stóriðjustefnan réð hér ríkjum, þegar hún átti að vera eina lausnin í atvinnumálum og verðmætasköpun þjóðarinnar til framtíðar. (Gripið fram í: … ríkisstjórn.)

Við erum öll sammála um að við þurfum að byggja upp atvinnulíf okkar og reisa það úr rústum. Við erum öll sammála um að þá þarf að tryggja verðmætasköpun í samfélaginu, öðruvísi gerist það ekki. (Gripið fram í: Hvernig?) Við erum líka öll sammála um að við þurfum að nýta auðlindir okkar, (Gripið fram í.) en það verður að sjálfsögðu að gera það á sjálfbærum forsendum og til framtíðar. Það er ekki boðlegt að koma hér haustið 2009 og segja: Nú skulum við skrúfa klukkuna aftur á bak, nú skulum við virkja allt sem við mögulega getum (Gripið fram í.) og nú skulum við fara í álverin af fullum þunga. (Gripið fram í.)

Við skulum gera okkur grein fyrir því, (Gripið fram í.) ef ég fæ tíma til þess að tala hér fyrir frammíkalli hv. þingmanna, að ef það á að virkja fyrir þessi tvö álver í Helguvík og á Bakka er öll orkan okkar farin. Hvernig ætlum við að hugsa á sjálfbærum nótum til framtíðar? Hvernig ætlum við að mæta öðrum kostum (Gripið fram í.) sem horfið hefur verið frá vegna þess að hér hefur áherslan verið svo mikið á álver undanfarin ár? (Gripið fram í.) Hvernig ætlum við að tryggja framleiðslu fyrir vistvænar samgöngur o.s.frv.? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Við þurfum að nýta orkuna með sjálfbærum hætti til framtíðar en ekki á þann hátt sem hér hefur verið haldið fram af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)