138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

nýting orkulinda til orkufreks iðnaðar og stöðugleikasáttmálinn.

[14:33]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram þó að hún hafi verið á stundum dálítið niðurdrepandi. Ég var að velta því fyrir mér hvort hæstv. iðnaðarráðherra líkaði illa sú raunsanna og hlutlæga lýsing sem ég gaf á mati aðila stöðugleikasáttmálans þegar hún kallaði ræðu mína svartagallsraus. Þetta er einfaldlega lýsing á þeim veruleika sem aðilar þessa sáttmála hafa sett fram á síðustu dögum. Og af ræðu hv. þm. Árna Þórs mátti helst skilja að hann hefði verið með formanni sínum úti í Istanbúl og hefði ekki heyrt umræðuna síðustu daga. Þeir þingmenn Vinstri grænna sem hér hafa tekið til máls hafa lýst því yfir, m.a. hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, að tími orkufrekrar stóriðju væri liðinn og undir það tók hv. þm. Árni Þór Sigurðsson.

Hvar í ósköpunum voru þingmenn Vinstri grænna þegar stöðugleikasáttmálinn var gerður 25. júní? Hvers vegna í ósköpunum komu þessi sjónarmið ekki fram? Ég dreg þá ályktun hér og nú að þessir sömu þingmenn, væntanlega sömu megin í flokknum, muni beita sér fyrir því að stöðugleikasáttmálinn renni út, eins og í stefnir að öllu óbreyttu nú um næstu mánaðamót. (Gripið fram í.) Hann tekur á miklu fleiri þáttum en stóriðjumálum, hv. þm. Árni Þór, miklu fleiri. Og það skal upplýst hér einfaldlega vegna þess sem kom fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra að áformin og uppbyggingin hjá Becromal í álþynnuverksmiðjunni á Akureyri eru í uppnámi að mati forsvarsmanna þess verkefnis, sérstaklega með vísan til þeirra áforma sem koma fram í margumræddu fjárlagafrumvarpi um þá 16 milljarða skattheimtu sem þar er lagður grunnur að. Í það minnsta skulda stjórnvöld forsvarsmönnum aðilum vinnumarkaðarins skýringar á því hvernig (Forseti hringir.) þetta muni ekki að stöðva þau áform sem í bígerð eru.