138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

staða heimilanna.

[14:39]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég held að öllum sem hér sitja sé ljóst af hverju það er nauðsynlegt að ræða stöðu heimilanna. Ég held að frá því að við ræddum stöðu heimilanna síðast hér í þessum þingsal hafi hún jafnvel bara versnað og þar er ég auðvitað að vísa til boðaðra skattahækkana á almenning. Byrðarnar á almenning eru orðnar ansi miklar og við þurfum að ræða það vandlega og af mikilli dýpt í þessum sal hvaða meðul og hvaða tæki og tól við höfum til þess að reyna að létta byrðarnar af almenningi í þessu árferði. Um það fjallar þessi umræða. Ég vonast til að í þessari stuttu umræðu getum við reynt að koma okkur upp úr hefðbundnum skotgröfum og hjólförum í þessu efni, sparað stærstu yfirlýsingarnar og reynt að finna einhvern samhljóm í þessum þingsal gagnvart þessu ógnarstóra verkefni.

Við framsóknarmenn höfum lagt fram tillögur í þessum efnum, við höfðum lagt áherslu á að eitt meðalið sem við höfum til þess að létta byrðum af almenningi sé í gegnum skuldirnar, að reyna að lækka skuldabyrðina, reyna að takast á við höfuðstól lánanna, reyna að leiðrétta þá gríðarlegu hækkun sem varð út af forsendubresti á höfuðstóli lánanna. Ég verð að segja, og það eykur mér von um að við getum fundið einhvern samhljóm hér í þingsal um nauðsynlegar aðgerðir í þessum efnum, að straumhvörf hafa orðið í umræðunni undanfarið. Það eru ekki bara við framsóknarmenn sem höfum talað fyrir leiðréttingu á höfuðstóli skulda undanfarið, Hagsmunasamtök heimilanna hafa talað fyrir því líka og nú síðast í sumar bárust ýmis skilaboð ofan úr Seðlabanka um að skynsamlegt væri að fara í almennar aðgerðir á lánamarkaði til þess að endurskipuleggja skuldirnar, eins og það var kallað þar. Það er því vaxandi fylgi við almennar aðgerðir á lánamarkaði. Núna síðast hafa þau straumhvörf orðið að félagsmálaráðherra borðar almennar aðgerðir til að lækka greiðslubyrði af lánum.

Ég vil nota tækifærið og fagna þessu. Þetta er viðurkenning á mjög stóru grundvallaratriði, þ.e. það er nauðsynlegt að fara í almennar aðgerðir. Allt of lengi höfum við karpað hér í þessum þingsal um það hvort fara eigi í almennar aðgerðir eða bara sértækar. Það er öllum augljóst að þetta útilokar ekki hvort annað. Almennar aðgerðir eru til þess fallnar að létta byrði af almenningi í heild sinni og líka til þess að koma efnahagslífinu aftur af stað. Ég fagna því að hæstv. félagsmálaráðherra virðist hafa komið auga á þetta og boði nú aðgerðir í þessum anda. Ég fagna því líka að haft hefur verið samráð við okkur framsóknarmenn í þessu og mér virðist hæstv. félagsmálaráðherra hafa verið mjög opinn fyrir hugmyndum í vinnu sinni á þeim fundum sem ég hef átt með honum.

Nú þarf að ræða hvaða næsta skref þarf að stíga því að eitt er að lækka greiðslubyrði lána núna og tengja hana við greiðslujöfnunarvísitölu, eins og hæstv. félagsmálaráðherra hefur rakið, það leysir einungis vandann að hluta til. Greiðslujöfnunarvísitalan er óljós, hún getur til langs tíma litið leitt til hækkunar á afborgunum og höfuðstóli lána langt umfram það sem verðlagsvísitalan gerði. Ég held að við þurfum að koma okkur út úr tengingunni við greiðslujöfnunarvísitöluna. Einnig er óljóst hvers virði lánin eru. Mér finnst þó mjög mikilvægt og vil halda því til haga að það er stórt skref að ákveðið skuli hafa verið að hafa þriggja ára lengingu á lánunum. Það er eitt form mögulegra afskrifta, það er almenn afskriftaleið og er mikilvægt að muna það. Þetta leiðir hins vegar til þess að virði lánanna er mjög óljóst, við vitum ekki hversu mikið verður afskrifað.

Ég vil nota tækifærið og hvetja hæstv. félagsmálaráðherra til þess að eyða þessari óvissu, til þess að stuðla að því á lánamarkaði að farið verði í afskriftir á höfuðstól núna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Að þessar afskriftir, sem hugsanlega verða eftir 40 ár í tilviki margra lána, verði núvirtar, að farið verði í þessar aðgerðir núna. Þegar hafa sumar lánastofnanir boðað aðgerðir með þessum hætti, eins og t.d. Íslandsbanki, og þar opnast einmitt ein leið. Það er hægt að fara í almennar afskriftir af lánum með því t.d. að bjóða upp á skuldbreytingu yfir í óverðtryggð lán. Þar held ég að við séum komin með gott pólitískt markmið, að reyna að koma íslenska lánamarkaðnum úr verðtryggðu kerfi yfir í óverðtryggt og við eigum að nýta tækifærin sem við höfum núna til þess því að við höfum tækifæri til þess.

Það má öllum vera ljóst að við getum ekki komist út úr kreppunni, frú forseti, með því bara að auka skattana, með því að hækka verðlagið, með því að styrkja ekki gengi krónunnar, (Forseti hringir.) með því að horfast ekki í augu við aukna skuldabyrði almennings. Við verðum að beita öllum meðulum sem við höfum og nú spyr ég hæstv. félagsmálaráðherra: (Forseti hringir.) Er ekki næsta skref að beita öllum tólum sem við höfum á markaði og á vegum hins opinbera til að lækka höfuðstól (Forseti hringir.) íslenskra lána núna? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)