138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

staða heimilanna.

[14:52]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir að taka upp umræðu um stöðu heimilanna og beina umræðunni að erfiðri greiðslustöðu margra heimila vegna íbúða- eða bílalána.

Það má ljóst vera að greiðslugeta fólks og möguleikar til að standa í skilum á íbúðalánum er mjög ólík en allir eiga það sammerkt að greiðslubyrðin hefur þyngst óheyrilega á þessu eina ári frá efnahagshruninu, hvort sem fólk hafði tekið verðtryggð eða gengistryggð lán. Það má ekki gleyma því að það tóku ekki allir þátt í því lífsgæðakapphlaupi sem frjálshyggjutímabilið bauð upp á. Bankarnir buðu ótæpileg lán til íbúðakaupa og héldu jafnvel myntkörfulánum að fólki. Boginn var spenntur til hins ýtrasta hvað greiðslugetu lántakenda varðaði, ekkert mátti út af bera enda gerði enginn ráð fyrir öðru en að þenslan héldi áfram, laun hækkuðu og almennt atvinnuleysi var ekki inni í myndinni.

Þessi tími er liðinn. Skorið var í óraunsæja glansmynd með harkalegum hætti og eftir sitja þeir sem tóku lán til íbúðarkaupa, flestir til að fjárfesta í hæfilegu húsnæði, nær eina búsetuforminu sem boðið hefur verið upp á um langt skeið. Íbúðarhúsnæði er stóra fjárfestingin í lífi okkar Íslendinga. Á mesta þenslutímanum mátti sjá íbúðarhúsnæði stækka að flatarmáli og íburði og þó að íbúðabyggjendur þessa húsnæðis hafi talið sig ráða við slíkar byggingar eru margir í þeirra hópi sem hafa misst bæði vinnu og fyrri fjárfestingar, greiðslugetan er brostin og gjaldþrotið stórt. Því er mikilvægt að ráðist sé í almennar aðgerðir til að auðvelda öllum að standa við afborganir, finna sanngjarna leið til að deila kostnaði vegna hrunsins á lántakendur og lánveitendur og hafa síðan aðgengilegar leiðir til að aðstoða þá sem ekki geta staðið undir afborgunum og teljast eiga húsnæði að matsverði langt undir hækkandi láni.

Hæstv. forseti. Við eigum að læra af þeirri alvarlegu stöðu sem við blasir, (Forseti hringir.) m.a. vegna þess hve einhæfur íbúðamarkaðurinn er. Félagsleg úrræði eru sárafá og almennur leigumarkaður hefur aldrei orðið að veruleika. (Forseti hringir.) Úr þessu verður að bæta og ættu næstu skref að miða í þá átt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)