138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

staða heimilanna.

[15:00]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu um skuldamál heimilanna. Jafnframt vil ég fagna aðgerðunum sem hæstv. félagsmálaráðherra stendur fyrir í sambandi við lækkun á greiðslubyrði heimilanna. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Við höfum fundið síðustu mánuði hvernig óþol heimilanna hefur byggst upp. Greiðsluviljinn hefur minnkað og nærri því örvænting tekið við.

Mig langar til að minnast á einn vinkil í þessu sambandi. Núna verður greiðslubyrði heimilanna minni vegna húsnæðislána, ef þetta gengur allt saman eftir. Á sama tíma boðar ríkisstjórnin skattahækkanir sem munu kosta heimilin u.þ.b. ein mánaðarlaun á ári þannig að heimilin eru í sömu stöðu og áður. Ljóst er að skattahækkanirnar taka ábatann sem þessi aðgerð hefur leitt af sér og vel það, þannig að staða hins almenna íslenska heimilis hvað varðar skuldir og greiðslubyrði mun ekki breyst. En það er ekki nema að hluta til hæstv. félagsmálaráðherra að kenna, ekki má taka frá honum það sem hann gerði gott.