138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

staða heimilanna.

[15:05]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir málefnalega umræðu. Ég þykist greina þann samhljóm sem ég lýsti eftir í ræðu minni en ég vil þó ítreka spurninguna til hæstv. félagsmálaráðherra, í þeirri von að kannski fái ég aðeins skýrara svar en kom fram í ræðu hans: Er ekki rökrétt næsta skref að reyna að beita öllum þeim tækjum sem markaðurinn býður upp á og hið opinbera og lánastofnanirnar hafa, til að lækka höfuðstól fasteignalána? Ég hef þá trú að fáar aðgerðir séu jafn vel til þess fallnar að koma efnahagslífinu aftur á stað, koma markaðnum af stað, auka neyslu og fjárfestingu og sú að létta skuldabyrðina, minnka höfuðstól íslenskra fasteignalána. Ég held að við höfum tækifæri til þess.

Nú ætla ég að hugsa aðeins upphátt: Ég held að við getum reynt að slá tvær flugur í einu höggi ef ekki fleiri. Við getum líka reynt á þessum tímapunkti í Íslandssögunni að búa til heilbrigðari lánamarkað með því að bjóða fólki að minnka höfuðstólinn gegn því að fara yfir í óverðtryggð lán. Þá minnkum við vægi verðtryggingar sem ég veit að er pólitískt markmið sem hæstv. félagsmálaráðherra skrifar undir, vegna þess hann hefur skrifað á þeim nótum. Þegar við erum komnir með fleiri lántakendur á Íslandi yfir í óverðtryggð lán verður markmið efnahagsstjórnar á Íslandi ansi heilbrigt, þ.e. að lækka vexti. Eftir svona þrjú ár höfum við lánamarkað og e.t.v. niðurgreidda vexti þangað til. Þá höfum við lánamarkað sem er sambærilegur við norrænt velferðarkerfi og við hæfi er að norræn velferðarríkisstjórn miði aðgerðir sínar að þessu marki, óverðtryggð húsnæðislán á u.þ.b. 4–5% vöxtum. Ég held að þetta sé markmið sem við eigum að setja okkur. Við höfum til þess meðul og ég spyr þá bara hæstv. félagsmálaráðherra á tungutaki 2007: Erum við ekki að dansa?