138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010 sem er 1. mál þessa þings. Í upphaflegum drögum að starfsáætlun þingsins var fyrirhugað að þessi umræða yrði á dagskrá sl. þriðjudag, þ.e. þriðjudaginn 6. október sl. og það hefði í sjálfu sér verið vel til fundið að hafa umræðuna á ársafmæli hrunsins því að svo sannarlega er þetta frumvarp og innihald þess skilgetið afkvæmi hrunsins sem hér varð. Frumvarpið er í senn sársaukafull birtingarmynd þess mikla tjóns, þess skaða sem íslenskt þjóðarbú og ekki síst ríkissjóður sitja uppi með eftir hrunadans nýfrjálshyggju og einkavæðingar sem fór eins og stormur um landið og endaði í hamförum og hruni.

Um leið er þetta frumvarp til marks um að við getum tekist á við og sigrast á þessum erfiðleikum. Það verður vissulega erfitt og kemur við alla en ef við reynumst þeim vanda vaxin að aðlaga okkar opinbera búskap að veruleikanum og gerum það sem gera þarf og gera verður til þess, mun það takast og um leið leggjum við grunn að endurreisn og betri tíð.

Ég mun nú gera hér grein fyrir helstu forsendum frumvarpsins og þeim áherslum sem í því felast, en vitanlega þarf umræða um þetta fjárlagafrumvarp að taka mið af því samhengi sem það er sett fram í, þeim veruleika sem við okkur blasir og verður ekki umflúinn. Ekkert fjárlagafrumvarp svo langt aftur sem menn nú á dögum muna hefur litið dagsins ljós við sambærilegar aðstæður.

Með hruni íslensku bankanna á haustmánuðum 2008 urðu einhver mestu þáttaskil í efnahagslífi Íslendinga frá stofnun lýðveldisins. Setja þurfti neyðarlög til að tryggja brýnustu hagsmuni þjóðarinnar og áframhaldandi bankastarfsemi í landinu. Mikil truflun varð á flæði fjármagns inn og út úr landinu og gengi krónunnar féll stórlega. Snarpur samdráttur varð í innlendri eftirspurn og atvinnuleysi jókst hröðum skrefum. Staða og horfur í ríkisfjármálum hríðversnuðu þegar útgjöld og skuldir vegna bankatjónsins stórjukust og efnahagslegar forsendur fyrir tekjuöflun ríkissjóðs rýrnuðu til muna. Eftir sitjum við sem þjóð með verulega þungar skuldir. Ríkissjóður, heimilin, atvinnulífið, sveitarfélögin — já allar helstu máttarstoðir samfélagsins hafa mátt axla og axla nú þungar byrðar.

Stærsta viðfangsefnið sem glíma þarf við þegar litið er fram á veginn er hin gríðarlega aukning sem orðið hefur á skuldum ríkissjóðs vegna áfallanna sem hann hefur þurft að taka á sig, ekki hvað síst vegna þrots Seðlabankans, og vegna skuldanna sem leiða af stórfelldum halla á ríkisfjármálum. Áætlað er að hreinar skuldir ríkissjóðs, lántökur umfram lánveitingar, muni í lok þessa árs hafa aukist um 55% af landsframleiðslu miðað við stöðuna eins og hún var í árslok 2007 — 55% af 1.400–1.500 milljarða landsframleiðslu. Í kjölfar skuldanna fylgir vaxtabyrði sem ryður úr vegi útgjöldum til mikilvægra málaflokka. Þá var ríkissjóður rekinn með 216 milljarða kr. halla árið 2008 og í ár stefnir hallinn, þrátt fyrir niðurskurð og tekjuöflun á miðju ári, í um 185 milljarða kr. Þessar tölur eru risavaxnar og þegar við berum þær saman við myndarlegan afgang af ríkissjóði árið 2007 upp á 89 milljarða kr. segir þetta kannski meira en flest annað um hin algeru umskipti sem þarna eru orðin.

Öllum má ljóst vera að við svo búið má ekki standa. Þessa skuldasöfnun verður að stöðva. Létta verður á vaxtabyrðinni aftur. Því lengri tíma sem það tekur að ná árangri í þessum efnum, þeim mun stærri og illviðráðanlegri verður vandinn. Við verðum að setja okkur metnaðarfull en ábyrg markmið um hvernig og hvenær þessu takmarki verði náð og það hefur ríkisstjórnin gert.

Fjárlagafrumvarpið byggir á forsendum og miðar að markmiðum skýrslu um áætlun ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013 sem ég lagði fyrir Alþingi í júní sl. Meginmarkmið hennar eru skýr. Í fyrsta lagi að ríkissjóður standi áföll vegna efnahagshrunsins af sér til að geta haldið uppi nauðsynlegri velferðar- og samfélagsþjónustu. Í öðru lagi að byrjað verði að grynnka á skuldabyrðinni sem allra fyrst til þess að létta vaxtabyrðina.

Aðlögunaráætlunin um ríkisfjármálin felur í sér að frumjöfnuður, tekjur og gjöld án fjármagnsliða, verði bættur um rúmlega 16% af landsframleiðslu á tímabilinu. Í ljósi aðstæðna er talið brýnt að ná mestum árangri strax á árinu 2010 með því að setja markmið um að frumhallinn verði ekki meiri en um 1,5% af landsframleiðslu.

Í samræmi við þessa áætlun er gert ráð fyrir verulegum bata í afkomu ríkissjóðs á árinu 2010 þannig að frumjöfnuður ríkissjóðs verði neikvæður um ekki nema 25,4 milljarða kr. á árinu 2010 í stað 126,7 milljarða kr. frumhalla á þessu ári. Heildarhalli á ríkissjóði lækkar einnig umtalsvert samkvæmt frumvarpinu og er hann áætlaður 87,4 milljarðar kr. árið 2010. Þessi bati hefur bein áhrif á handbært fé frá rekstri sem áætlað er að verði neikvætt um 95 milljarða kr. í stað um 174 milljarða kr. í ár. Til þess að þetta megi takast þarf mikið til: Aðhaldsráðstafanir og hagræðingaraðgerðir á útgjaldahliðinni og nýja tekjuöflun með breytingum á skattkerfum á tekjuhlið.

Í þessu sambandi má spyrja sig eftirfarandi spurninga:

Verður komist hjá aðgerðum af þessu tagi? Svarið er nei. Slíkur hallarekstur mundi, ef ekkert er að gert, sliga ríkissjóð og gera skuldastöðuna algjörlega óbærilega — eða ósjálfbæra eins og nú er gjarnan sagt — á örfáum árum.

Er hægt að ná nauðsynlegum árangri með niðurskurði einum saman? Aftur er svarið nei. Það mundi stórskaða velferðarkerfið og samneysluna og væri auk þess efnahagslegt glapræði sem mundi dýpka kreppuna enn frekar þar sem niðurskurður hefur samstundis áhrif á eftirspurn á meðan áhrif skattbreytinga koma fram á nokkrum árum.

Er hægt að ná þessum árangri eingöngu með nýrri tekjuöflun? Svarið er enn nei. Slíkt færi langt út fyrir þolmörk skattstofna og ofbyði greiðslugetu einstaklinga og atvinnulífs.

Blandaðar aðgerðir sparnaðar og tekjuöflunar eru eina færa leiðin og eru í samræmi við þá niðurstöðu og þær áherslur sem stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins náðu saman um sl. sumar þegar gengið var frá svokölluðum stöðugleikasáttmála. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að um 47% af bata frumjöfnuðar, þ.e. afkomu að frátöldum vaxtatekjum og vaxtagjöldum, í ríkisfjármálunum árið 2010 verði náð með aukinni tekjuöflun og um 53% með samdrætti í útgjöldum. Vissulega er það ekki upp á prósent það sem rætt var um við gerð stöðugleikasáttmálans en mjög nálægt því og ég tel mikilvægt að halda fast við þau markmið sem þar voru lögð til grundvallar og það er gert í þessu frumvarpi.

Það er ásetningur stjórnvalda að aðhaldsaðgerðir og samdráttur í útgjöldum hins opinbera bitni sem allra minnst á hag heimilanna og velferðarþjónustunni, einkum í félags- og heilbrigðismálum. Þannig verður félagslegt öryggi tryggt eins og nokkur kostur er og grunnþjónusta á borð við starfsemi skóla varin. Til að svo geti orðið ber brýna nauðsyn til þess að fé sem varið er til verkefna og þjónustu hins opinbera verði vel nýtt. Óhjákvæmilegt er að í því skyni verði fyrirkomulag og forgangsröðun í opinberum rekstri tekin til gaumgæfilegrar skoðunar. Nýta þarf öll færi til hagræðingar og nýsköpunar í ríkisrekstrinum.

Fjárlagafrumvarp þetta er ekki pólitískur draumóramatseðill, hvorki fyrir mig né nokkurn annan, heldur felur það í sér hið óhjákvæmilega. Það sem frumvarpið boðar er án nokkurs vafa eitt það allra erfiðasta sem Alþingi Íslendinga og íslenskt samfélag hafa þurft að takast á við. Því er mikilvægt og það væri mikil gæfa ef um þetta erfiða verkefni gæti náðst eins breið samstaða og kostur er, ekki bara hér á Alþingi heldur einnig úti í samfélaginu. Í þeim anda var lögð sérstök áhersla á gott samráð við ýmsa aðila þegar markmið frumvarpsins voru unnin og sett fram sl. vor. Víðtækt samráð var haft milli ráðuneyta auk þess sem að því komu formenn og varaformenn þingnefnda.

Markmið stöðugleikasáttmálans hafa einnig verið lögð til grundvallar við gerð frumvarpsins, eins og áður sagði, og sérstaklega hefur verið reynt að upplýsa aðila um framvinduna við undirbúning frumvarpsins, þótt betur hefði örugglega mátt gera í þeim efnum, og það hefði verið gert ef aðstæður hefðu ekki verið með þeim hætti sem allir þekkja og allt unnið undir miklu álagi og í tímanauð. Er það von mín að umfjöllun og vinna við þetta mál haldi áfram í þessum anda samstarfs og samstöðu.

En góð vinnubrögð eru ekki einungis mikilvæg við undirbúning og útfærslu fjárlaganna heldur mun það ekki síður skipta miklu máli við framkvæmd þeirra. Ríkisstjórnin leggur ríka áherslu á að tryggja trúverðugleika fjárlaga. Trúverðugleikinn er m.a. kominn undir vilja og getu ríkisstjórnar, ráðuneyta og stofnana til að halda útgjöldum ríkissjóðs innan heimilda fjárlaga. Í því skyni hefur ríkisstjórnin ákveðið ýmsar breytingar á verklagi og viðmiðunum sem auka á trúverðugleika fjárlaga og styrkja framkvæmd þeirra, auk þess sem gripið verður til ýmissa annarra aðgerða. Að sjálfsögðu kemur svo stór þáttur Alþingis og fjárlaganefndar Alþingis hér við sögu og mikilvægt að þar sé gott samstarf og greiðir gangvegir á milli þannig að Alþingi geti fylgt fram sínu nauðsynlega eftirlits- og aðhaldshlutverki auk þess að vinna að fjárlagafrumvarpinu sjálfu eftir að það kemur í þess hendur.

Efnahagsforsendur fjárlagafrumvarpsins eru settar fram í nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins. Þar er gert ráð fyrir 1,3% hagvexti sem orðið hafi á árinu 2008, en að landsframleiðsla dragist saman um 8,4% á árinu 2009 og 1,9% árið 2010. Næstu ár þar á eftir er því spáð að hagvöxtur aukist á ný áður en á honum hægist aftur. Í þessu sambandi vil ég nefna að samkvæmt þjóðhagsspá, eftir lækkun í ár og á næsta ári, verðum við þó árið 2014 komin upp fyrir tekjustig ársins 2008 að raungildi þrátt fyrir þær miklu fórnir sem verið er að færa nú og á næstu árum til þess að koma ríkisfjármálunum í rétt horf. Spáð er að atvinnuleysi muni aukast sem hlutfall af vinnuafli enn um sinn áður en úr því tekur að draga aftur á árinu 2011.

Þar sem gengi krónunnar hefur haldist veikt er áætlað að verðbólga verði nálægt 12% í ár þrátt fyrir lækkun fasteignaverðs og hóflegar verðbreytingar að öðru leyti. Á næsta ári er reiknað með því að verðbólga lækki hratt og verði að meðaltali 5% á milli ára, hún verði komin nálægt 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans í lok ársins 2010 og haldist lág og stöðug á komandi árum.

Halli á viðskiptajöfnuði varð gríðarlegur árið 2008 vegna hruns bankanna, eða um 42% af landsframleiðslu. Svo mikil halli er fáheyrður í þróuðu ríki. Veiking á gengi krónunnar hefur hins vegar bætt samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda verulega og er gert ráð fyrir að hallinn dragist hratt saman í ár þegar mikill afgangur á vöru- og þjónustuviðskiptum fer langt með að vega upp fyrir hallann á þáttatekjujöfnuði.

Með aðgerðum á sviði ríkisfjármála og peningamála til að stemma stigu við þeim áföllum sem dunið hafa yfir þjóðarbúið er reiknað með að þjóðhagslegt jafnvægi verði endurheimt innan fárra ára með lægra atvinnuleysi, lágri og stöðugri verðbólgu og jafnvægi í erlendum viðskiptum. Jafnframt er viðbúið að betra ytra jafnvægi í þjóðarbúskapnum á komandi árum styrki krónuna þegar fram í sækir eftir þá miklu veikingu á gengi hennar sem orðið hefur.

Ríkissjóður hafði um langt árabil verið rekinn í jafnvægi eða með afgangi, sem sum árin var verulegur þannig að fyrir áfallið voru inneignir hans í Seðlabankanum um 170 milljarðar kr., eða sem þá nam ríflega 10% af vergri landsframleiðslu, og nettóskuldastaðan var með því lægsta sem þekktist á meðal Evrópuþjóða. Tekjuöflunin reyndist hins vegar ekki vera reist á traustum grunni því að þetta breyttist í einu vetfangi í gríðarlegan rekstrarhalla á ríkissjóði sem áætlað er að verði jafnvel nokkru hærra hlutfall af landsframleiðslu á árinu 2009 en afgangurinn eða innstæðan var í Seðlabankanum sem ég nefndi áðan.

Hrun bankakerfisins og þróunin í þjóðarbúskapnum hefur haft mikil áhrif á ríkisfjármálin til hins verra. Þótt tekjur og gjöld ríkissjóðs hafi að öðru leyti verið nálægt því að vera í jafnvægi árið 2008 varð mikill rekstrarhalli það ár vegna tapaðra krafna í bankakerfinu sem ríkissjóður þurfti að taka á sig. Að þeim töpum frátöldum er áætlað að hallinn verði enn þá hærra hlutfall af landsframleiðslu þegar tekjur lækka í takt við samdrátt þjóðarútgjalda en útgjöld, einkum vegna vaxtakostnaður og atvinnuleysisbóta, stóraukast. Þannig hefur afkoma ríkissjóðs versnað mikið frá 4. ársfjórðungi 2008. Með aðgerðum til að lækka útgjöld og auka tekjur er markmiðið að afkoma ríkissjóðs verði komin í jafnvægi árið 2012 og að hann verði rekinn með umtalsverðum og vaxandi afgangi árin 2013 og 2014.

Brýnt er að sá árangur náist til að gera það kleift að lækka skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu jafnt og þétt á komandi árum. Í fjárlagafrumvarpinu er því spáð að tekjur ríkissjóðs aukist á komandi árum vegna breytinga á skattkerfinu og að útgjöld ríkissjóðs dragist saman í samræmi við efnahagsáætlun stjórnvalda. Öllum má þó ljóst vera að þetta verður erfið og vandasöm vegferð sem mun reyna á þanþol hagkerfisins og hins opinbera búskapar bæði í efnahagslegum og pólitískum skilningi.

Ég vek athygli á því að í þessum tölum sem ég hef nefnt um afkomuþróun ríkissjóðs samkvæmt framsetningu fjárlagafrumvarpsins er ekki gert ráð fyrir að áætlun um vaxtagjöld feli í sér mat á áföllnum vöxtum í tengslum við svokallaða Icesave-reikninga Landsbankans. Það er hins vegar gert í framsetningu áætlunarinnar á þjóðhagsgrunni í þjóðhagsspá.

Munur er á heildarjöfnuði að meðtöldum vaxtajöfnuði miðað við hvor framsetningin er notuð en eftir sem áður er aðlögunarferill frumjafnaðar sá sami í báðum tilvikum en það er lykilatriði langtímaáætlunarinnar. Til athugunar er hvernig rétt er að fara með mat á hugsanlegum áhrifum þessa þáttar á fjármál ríkisins.

Tekjur ríkissjóðs hafa dregist verulega saman á árinu 2009 eins og reiknað var með í fjárlögum ársins. Í fjárlögum var áætlað að heildartekjur yrðu 402,5 milljarðar kr. og þar af 364,3 milljarðar kr. í skatttekjur. Nú er útlit fyrir að skatttekjur verði aðeins 350,6 milljarðar kr. þrátt fyrir skattahækkanir á árinu. Heildartekjur eru hins vegar áætlaðar heldur meiri en í fjárlögum eða 406,9 milljarðar kr. vegna meiri vaxtatekna en reiknað var með, en ráðstafanir til fjármögnunar á halla ríkissjóðs og breytingar á vaxtaberandi eignum hafa orðið aðrar en áætlað var í forsendum fjárlaga.

Áformað er að tekjur ríkissjóðs árið 2010 verði 468,2 milljarðar kr., sem er um 61 milljarðs kr. aukning frá árinu 2009. Tekjuáformin eru byggð á markmiðum áætlunarinnar um að jöfnuði verði náð í ríkisfjármálum á næstu fjórum árum og í frumvarpinu eru skatttekjur áætlaðar um rúmir 420 milljarðar kr.

Á árinu 2009 lækka skatttekjur ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu úr 28,0% árið 2008 í 23,8% í ár. Það er til komið vegna lækkunar launatekna og samdráttar í eftirspurn sem eðlilega leiða til minni tekju- og neysluskatta. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2010 er gert ráð fyrir að þetta hlutfall færist nær því sem verið hefur undanfarin ár og verði um 27% af vergri landsframleiðslu.

Eins og fyrr segir er áætlað að 47% af bata frumjafnaðar verði náð með auknum tekjum. Auk nýrrar tekjuöflunar á það rætur að rekja til heilsársáhrifa af þeim skattahækkunum sem tóku gildi um mitt ár 2009 og áhrifa af áætluðum launa- og verðlagsbreytingum.

Tekjur af fyrirhuguðum skattbreytingum skiptast þannig á helstu skattaflokka að meðtöldum verðlags- og stofnbreytingum og heilsársáhrifum fyrri aðgerða: Áætlað er að beinir skattar hækki um 37,6 milljarða kr. Óbeinir skattar hækki um 8 milljarða kr. en þar er um að ræða breytingar á vörugjöldum, hugsanleg breikkun stofns virðisaukaskatts og endurflokkun í þrep hans. Fyrirhuguð er upptaka nýrra orku-, umhverfis- og auðlindagjalda sem áætlað er að geti skilað samtals allt að 16 milljörðum kr. í auknum tekjum.

Unnið er að undirbúningi þeirra breytinga á skattalögum sem þarf til að afla megi þeirra tekna sem að er stefnt. Þeirri vinnu mun ljúka á næstunni. Hún felur m.a. í sér viðamikla gagnaöflun og útreikninga á áhrifum mismunandi leiða á tekjur ríkissjóðs, tekjudreifingu einstaklinga, skattaframkvæmd og fleiri atriði sem máli skipta. Meginþungi þeirra breytinga sem til álita koma er í beinum sköttum þar sem verið er að skoða leiðir til að byggja þær breytingar sem gerðar voru á miðju ári varanlega inn í tekjuskattskerfið og auka tekjur ríkissjóðs þannig að það snerti sem minnst hag þeirra sem síður mega við aukinni skattbyrði. Einnig er verið að huga að lagfæringum ýmissa annmarka svo sem að draga úr misræmi í skattlagningu tekna af rekstri, reiknuðu endurgjaldi og að loka ýmsum sniðgönguleiðum. Einnig verður sérstaklega hugað að frádráttarheimildum og undanþágum.

Hvað gjöldin varðar er gert ráð fyrir að heildarútgjöld ársins 2010 verði 555,6 milljarðar kr. samanborið við 589 milljarða kr. í ár samkvæmt endurskoðaðri áætlun. Að nafnvirði eru útgjöldin u.þ.b. óbreytt frá fjárlögum fyrir árið 2009. Að baki þeirri veltutölu búa hins vegar verulegar breytingar á ýmsum útgjaldaþáttum þar sem vegast á málefni sem leiða til lækkunar og hækkunar.

Þegar litið er á helstu breytingar sem verða á útgjaldahliðinni frá fjárlögum 2009 er fyrst að nefna útgjöld sem leiða af óhjákvæmilegum afleiðingum efnahagskreppunnar eða ýmsum öðrum útgjaldaskuldbindingum sem bundin eru í lög, samningum eða ákvörðunum stjórnvalda. Samtals er um að ræða um 21 milljarð kr. í hækkun af þessum tilefnum frá fjárlögum 2009. Skýrist það af stærstum hluta af fáum veigamiklum áföllnum skuldbindingum.

Mestu munar um aukin útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs upp á 12,3 milljarða kr., áfallnar ríkisábyrgðir upp á 2,3 milljarða kr. og áhrif á launakostnað ríkisins af hækkun tryggingagjalds um 1,66%, sem nema um 2,2 milljörðum kr. Veigamesta breytingin felst í ákvörðunum stjórnvalda um fjölmargar almennar og sértækar aðgerðir til að draga saman ríkisútgjöldin sem nemur 42,8 milljörðum kr. á árinu 2010, eins og ég mun koma nánar að hér á eftir. Að samanlögðu verður breyting frumgjalda frá fjárlögum 2009 þannig um 21 milljarður kr. til lækkunar á föstu verðlagi.

Því til viðbótar kemur launa-, gengis- og verðlagshækkun frumvarpsins sem gert er ráð fyrir að verði afar aðhaldssöm og sporni gegn útgjöldum sem annars mundu falla til. Reiknað er að fullu með áhrifum af veikingu krónunnar í útgjöldum sem greidd eru í erlendri mynt og óhjákvæmilegt er að taka tillit til. Sú kostnaðarhækkun nemur um 4,1 milljarði kr. frá fjárlögum ársins 2009.

Í annan stað er reiknað með að önnur rekstrargjöld í almennum rekstri stofnana — en algengt er að þau nemi um 20–30% af veltu — hækki sem nemur spá um verðbólgu milli ára eftir að þessir kostnaðarliðir hafa tekið á sig að fullu þá aðlögunarkröfu sem frumvarpið byggir á. Kostnaður sem hlýst af þeim hækkunum og nokkrum öðrum bundnum verðlagsþáttum nemur um 3,3 milljörðum kr.

Þá er í þriðja lagi reiknað með hækkunum á launum hinna lægst launuðu þann 1. júní 2010, sem samið var um í kjarasamningum fyrr á þessu ári, um 0,7 milljarðar kr., til viðbótar við áhrif af launahækkunum 1. júní og 1. nóvember nk. á ársgrundvelli. Hins vegar gerir frumvarpið ráð fyrir að engar aðrar hækkanir verði á launum ríkisstarfsmanna eða á grunnfjárhæðum bótakerfanna, svo sem almannatrygginga, atvinnuleysistrygginga, barnabóta, vaxtabóta og fæðingarorlofsgreiðslna, en slíkt mundi hafa í för með sér viðbótarútgjöld sem næmu ríflega 11 milljörðum kr. ef miðað er við verðbólguspá frumvarpsins og 3% launahækkanir.

Hér er um að ræða heildstæða ráðstöfun sem ljóst má vera að ekki er gripið til nema af brýnni nauðsyn því að það mun óhjákvæmilega leiða til skerðingar kaupmáttar hjá þessum fjölmennu hópum. Í því sambandi þarf þó einnig að horfa til þess að bótaþegar sem eru með hámarkstryggingu fengu 20% hækkun um síðustu áramót og aðrir bótaþegar fengu tæplega 10% hækkun.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir fjölmörgum aðhaldsaðgerðum sem taka til flestra útgjaldaliða og er ætlað að skila samtals 42,8 milljörðum kr. í lækkun útgjalda á árinu 2010 miðað við fjárlög ársins 2009. Nokkur hluti þessara aðgerða kom til framkvæmda á árinu 2009. Nýjar ráðstafanir til að draga úr ríkisútgjöldum nema rúmlega 35 milljörðum kr. í samræmi við markmið sem kynnt voru við undirbúning frumvarpsins í áðurnefndri skýrslu um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum. Þessu til viðbótar má telja að spornað sé gegn um 11 milljarða kr. útgjöldum sem ella hefðu getað fallið til vegna hækkana á launum og bótagreiðslum. Aðhaldsaðgerðir í rekstri nema um 13,9 milljörðum kr.

Almennt er stjórnsýslu- og eftirlitsstofnunum ætlað að gera ráðstafanir til að draga úr rekstrarkostnaði sem nemur um 10% frá fjárlögum 2009 til viðbótar við þau markmið sem þar voru sett. Gert er ráð fyrir nokkru minni sparnaði í rekstri menntastofnana sem annast kennslu, eða 7% frá fjárlögum 2009, og velferðarstofnunum sem veita heilbrigðisþjónustu eða þjónustu við fatlaða er almennt ætlað að ná fram 5% sparnaði.

Aðhaldsaðgerðir í tilfærslum nema um 15 milljörðum kr. Spornað er gegn innbyggðum vexti þjónustu- og bótakerfa af mikilli festu og ekki er gert ráð fyrir neinum hækkunum á bótaflokkum tilfærslukerfa eins og áður var getið. Útgjöld vegna félagslegrar aðstoðar og lífeyristrygginga lækka um 4,4 milljarða kr. í samræmi við lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem sett voru á sumarþingi 2009 og frekari breytingar eru áformaðar.

Fyrirhugað er að lækka útgjöld vegna greiðslu fæðingarorlofs um 1,5 milljarða kr. og lækka greiðslur barnabóta til hina tekjuhærri um 1 milljarð kr. Fyrirhugað er að ná fram lækkun á útgreiðslum Atvinnuleysistryggingasjóðs sem nemur um 0,8 milljörðum kr. með hertu eftirliti og betri eftirfylgni með því að bætur renni til þeirra sem eiga sannanlega rétt til þeirra. Samtals er áformað að gera breytingar til að draga úr útstreymi úr bótakerfum ríkisins sem nemur um 7,7 milljörðum kr. miðað við veltu þeirra í fjárlögum 2009. Þetta svarar til 7% samdráttar í útgjöldum þessara tilfærslukerfa. Gerðar verða ráðstafanir til að draga úr útgjöldum sjúkratrygginga um 3,6 milljarða kr. og vegur lyfja- og sérfræðilækniskostnaður þar langþyngst. Framlög til þróunaraðstoðar lækka einnig um 0,7 milljarða kr. Loks má nefna að ráðuneytin skera eða fella niður margs konar úthlutanir og styrki sem teljast til tilfærsluframlaga og er þar um að ræða hátt í 2 milljarða kr.

Aðgerðir til lækkunar á viðhaldi og stofnkostnaði nema um 14 milljörðum kr. miðað við fjárlög ársins 2009. Hér er fyrst og fremst um að ræða lækkun á framlagi til samgönguframkvæmda sem nemur um 12,3 milljörðum kr. Þar af eru 3,5 milljarðar kr. vegna samdráttar í útgjöldum vegna vegakerfisins sem kemur til framkvæmda þegar í ár en frekari ráðstafanir til lækkunar á þeim útgjöldum á næsta ári nema um 8,8 milljörðum kr. Þá lækka gjaldfærðar niðurgreiðslur vaxta vegna lána til kaupa á leiguíbúðum um tæplega 0,7 milljarða kr. og 0,4 milljarða kr. framlag sem ætlað var til að hefja byggingu nýs hátæknisjúkrahúss fellur niður. Með þessum aðhaldsráðstöfunum verður fjárfesting á vegum ríkisins um 1,4% af landsframleiðslu á næsta ári en hún var um 1,9% að meðaltali á árunum 2001 til 2007 áður en þau framlög voru aukin mjög umtalsvert á árinu 2008, einkum vegna vegaframkvæmda.

Á safnlið undir fjármálaráðuneyti er í frumvarpinu gert ráð fyrir 5 milljarða kr. óráðstafaðri fjárheimild, eins konar varasjóði sem fjármálaráðherra er heimilt að nota til að bregðast við ófyrirséðum eða óvæntum útgjöldum á fjárlagaári án þess að það raski útgjaldahlið fjárlaga. Sá safnliður er ætlaður til að treysta betur forsendur útgjaldahliðar frumvarpsins með því að skapa nokkurt svigrúm til að mæta áætlun um heildarútgjöld og að hún geti staðist þótt frávik verði á útgjaldaliðum sem ekki eru fyrirséðir á þessari stundu. Varasjóðurinn er þannig fyrirkomulag sem er ætlað að styrkja trúverðugleika fjárlaga. Ráðstöfun þessarar óskiptu fjárheimildar verður háð ströngum skilyrðum. Fyrst og fremst er henni ætlað að mæta hugsanlegum frávikum í almennum gengis- og verðlagsforsendum frumvarpsins.

Vegna annarra skuldbindinga ríkisins verður sjóðnum einungis ætlað að mæta útgjöldum sem eru óhjákvæmileg, voru ófyrirséð við afgreiðslu fjárlaga og eru umfram ákveðna lágmarksfjárhæð. Eðli og umfang útgjaldanna verður að liggja fyrir og almenna reglan er að einungis hluta fjárþarfar verður mætt með framlagi úr varasjóðnum. Fjármálaráðuneyti verður ekki heimilt að greiða framlag úr varasjóði fyrr en fyrir liggur að aðrar aðgerðir til að mæta ófyrirséðum eða óvæntum útgjöldum skili jafnframt árangri.

Frú forseti. Ég hef í máli mínu gert grein fyrir meginatriðum frumvarps til fjárlaga fyrir komandi ár. Ljóst er að margt er þar öðruvísi en óskandi væri, ekkert okkar hefði órað fyrir því t.d. fyrir tveimur árum síðan að við stæðum frammi fyrir þeim hlutum í dag sem við gerum.

Ýmsir kunna að spyrja sig að því hvort það sé yfir höfuð gerlegt að ráða fram úr vandanum og ná þeim tökum á ríkisfjármálunum sem ríkisstjórnin hefur sett sér í samráði við hagsmunaaðila, m.a. með gerð svonefnds stöðugleikasáttmála. Vandséð er þó að önnur leið sé fær ef ekki á illa að fara. Hins vegar þarf stöðugt að vega og meta hversu miklar ráðstafanir í ríkisfjármálum er skynsamlegt að leggja út í, bæði tekju- og gjaldamegin, með tilliti til áhrifanna á heimilin og atvinnulífið og á hinn bóginn hversu mikill vítahringur og frambúðarvandi getur hlotist af því að grípa ekki nægjanlega fast í taumana til að stöðva skuldasöfnunina hratt. Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar miðast við að halla í ríkisrekstrinum verði snúið í afgang á fjórum árum. Það kann að virðast mikið í fang færst en ég hef fulla trú á því að sú áætlun geti gengið eftir ef samstaða getur orðið um það og við missum aldrei sjónar á lokatakmarkinu.

Þó að horfur til skamms tíma séu ekki góðar er mikilvægt að við höfum í huga að til lengri tíma litið eru þær betri en hjá mörgum öðrum, jafnvel flestum öðrum þjóðum. Við verðum einnig að líta til þess að það er ekki allt sem er okkur mótdrægt heldur ýmislegt sem vinnur með okkur.

Þótt spáð sé að atvinnuleysi verði verulegt hér á landi á næsta ári eru líkur á, því miður, að svipuð þróun verði í mörgum löndum sem við berum okkur saman við, en að auki er gert er ráð fyrir að það taki að draga umtalsvert úr því strax á árinu 2011. Þá er gert ráð fyrir að hagvöxtur aukist strax á því ári og, eins og áður sagði, að árið 2014 verðum við komin upp fyrir tekjustig ársins 2008 að raungildi.

Mestu skiptir auðvitað að við sköpum forsendur fyrir almenna endurreisn í efnahags- og atvinnulífinu til þess að draga sem fyrst úr atvinnuleysi. Í því sambandi hefur verulega þýðingu að lækkun á gengi krónunnar styrkir mjög samkeppnisstöðu og tekjustreymi útflutningsgreina, sjávarútvegsins, ferðaþjónustunnar, iðnfyrirtækja, samkeppnisfyrirtækja og nýsköpunar. Það má segja að það sé hin hliðin á krónunni. Reiknað er með að vöruskiptajöfnuðurinn verði jákvæður um hátt í 100 milljarða kr. á þessu ári og hann verði jafnvel jákvæður um 130 milljarða kr. á næsta ári. Við búum að mannauði þar sem saman fer mikil vinnusemi og gott menntunarstig og margir verða tilbúnir til að taka til hendinni ef okkur tekst að nýta sóknarfæri með nýsköpun og endurnýjun heilbrigðs atvinnulífs. Ekki má heldur gleyma að við eigum öflugt lífeyrissjóðakerfi og að eignir lífeyrissjóðanna eru þrátt fyrir áfall vegna bankahrunsins svipaðar eða hærri á mann en olíusjóður Norðmanna er í Noregi.

Þegar tekið er mið af þeim árangri sem þrátt fyrir allt hefur náðst á undanförnum mánuðum og þeim möguleikum sem við höfum er engin ástæða til að missa trúna á framtíðina þó svo að næsta ár muni taka á. Ef við stöndum saman og leggjum okkar af mörkum mun Ísland sigrast á erfiðleikum sínum.

Alþingis bíður mikil og ströng vinna. Það dylst hvorki mér né öðrum að sú vinna verður með öðru sniði en alla jafna. Og það gildir ekki síst um meiri og erfiðari niðurskurð en dæmi eru um áður, það á ekki síður við um tekjuhliðina, þar sem margt er enn óútfært. Vinnan fram undan er vandasöm en ég treysti fjárlaganefnd og Alþingi til að leysa hana vel af hendi. Það liggur mikið við.

Að svo mæltu, frú forseti, legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar.