138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[11:10]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki skal standa á stjórnarandstöðunni við það verk að leiðbeina hæstv. fjármálaráðherra á rétta braut í þessum efnum. Frumskilyrðið hlýtur að vera það að skamma ekki þá sem gera athugasemdir við mjög ógreinilegan og óskiljanlegan texta í frumvarpinu sjálfu og hafa, hvað svo sem orðræðunni líður, fullan rétt til þess að líta svo á að þau áform sem þar eru birt gangi á svig við þá samninga sem íslensk stjórnvöld hafa gert við viðkomandi fyrirtæki.

Réttast væri því að hæstv. ráðherra tæki þetta mál upp með hraði og gerði mönnum grein fyrir sinni sýn á þetta mál sem óhjákvæmilega — ég dreg ályktanir af svari hæstv. ráðherra hér áðan að ekkert liggi fyrir með hvaða hætti á að gera þetta. Það er margt óútfært í því en það er vel þess virði að hugleiða með hvaða hætti þessir skattar eiga að bitna á landsmönnum öllum. Því væri mjög æskilegt að fá fram hugmyndir ráðherra um það hvernig hann sér þessa 16 milljarða, sem eru stór póstur í því að ná niður halla ríkissjóðs — 16 milljarðar kr. í auknar skatttekjur — birtast þeim fyrirtækjum sem þó hafa skrimt í gegnum þá erfiðleika sem við erum að ganga í gegnum, við hátt vaxtastig og fleiri erfiðleika sem þau eiga við að etja. Hverjir eiga að verða greiðendur þessa skatts aðrir en stóriðjunotendur?

Það kom yfirlýsing um það frá hæstv. landbúnaðarráðherra í fjölmiðlum í morgun að hann sæi þennan skatt ekki ganga yfir landsbyggðina. Er þá ætlunin sú að þetta verði svæðaskipt eða fyrirtækjaskipt? Ég tel fullkomlega eðlilegt að kallað sé eftir mjög skýrum svörum í þessum efnum.