138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[11:14]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Við gerum okkur öll grein fyrir því að það er erfitt verk fyrir höndum að koma saman fjárlögum fyrir árið 2010. Það kom mér því á óvart að heyra hæstv. ráðherra tala hér áðan um hversu gríðarlega mikið samráð hefði verið haft um að semja þetta fjárlagafrumvarp því að við í stjórnarandstöðunni höfum ekki orðið vör við mikið samráð hvað okkur áhrærir. En gott og vel, við erum orðin vön þeim vinnubrögðum hér á Alþingi. (Gripið fram í.)

Hæstv. ráðherra nefndi að gríðarlega umfangsmikið samstarf hefði verið átt við aðila vinnumarkaðarins og stöðugleikasáttmálinn svonefndi var nefndur nokkuð oft í þeirri ræðu. Nú er það ljóst að aðilar vinnumarkaðarins hafa sagt að forsendur stöðugleikasáttmálans séu brostnar. Þar með eru forsendur fjárlagafrumvarpsins brostnar. Það er því eðlilegt að við spyrjum, í ljósi þess að aðilar vinnumarkaðarins hafa á síðustu dögum gagnrýnt harðlega hvernig ríkisstjórnin hefur m.a. leitast við að þvælast fyrir atvinnuuppbyggingu víða um land með nýlegum ákvörðunum til að mynda hæstv. umhverfisráðherra, hvort þær forsendur sem menn gáfu sér fyrir rúmum 100 dögum í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins séu ekki brostnar. Þá er eðlilegt að við spyrjum hæstv. forsætisráðherra, fyrst hún hefur ekki haft neitt samstarf við okkur í stjórnarandstöðunni og að allt samstarf gagnvart aðilum vinnumarkaðarins virðist vera brostið: Hvað er að marka þetta plagg sem hefur verið dreift hér á Alþingi í dag?

Ríkisstjórnin er söm við sig. Hún hlustar ekki og hún þvælist helst fyrir atvinnuuppbyggingu, sem er gríðarlega alvarlegt mál á erfiðum tímum. Við framsóknarmenn teljum að ríkisstjórnin gangi allt of langt gagnvart heimilum landsins þegar verið er að auka tekjur ríkissjóðs.

Staða heimilanna er gríðarlega alvarleg í dag en því miður virðist þessi ríkisstjórn ekki hafa nein tengsl við íslenskt atvinnulíf, (Forseti hringir.) hún ætlar ekki að fjölga störfum hér. Það sýna nýlegar ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir. (Gripið fram í.)