138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[11:19]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra kom ekkert inn á það sem ég nefndi hér að aðilar vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins, hafa gagnrýnt ríkisstjórnina á síðustu dögum mjög harðlega fyrir að hafa ekki staðið við sinn hluta af stöðugleikasáttmálanum. Þegar hæstv. ráðherra segir að forsendur fjárlaga hafi aldrei legið eins glöggt fyrir og nú held ég að hæstv. ráðherra ætti aðeins að lækka trumbusláttinn í þeim málflutningi því að það er margt mjög óljóst í þeim efnum. Og nýlegar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar munu leiða til þess að mörg hundruð störf munu glatast eða þeim seinka þegar við horfum upp á það að þúsundir Íslendinga ganga um atvinnulausar.

Hvað þýðir það? Það þýðir að við munum þurfa að leggja enn þá meiri peninga í Atvinnuleysistryggingasjóð og við fáum minni skatttekjur en ella þannig að þær forsendur sem hæstv. ráðherra talar um hér eru einfaldlega ekki fyrir hendi. Það er engin samstaða á bak við þessa ríkisstjórn um þær aðgerðir sem hún hefur farið í að undanförnu. Það er svo margt í því frumvarpi sem við ræðum hér sem stenst einfaldlega ekki. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur í hyggju, sem hún hefur reyndar ekki útfært mjög nákvæmlega, hvernig hún ætli að standa að tekjuöflun með því að skattleggja fjölskyldurnar í landinu ofan á gríðarlega erfiða stöðu hjá mörgum heimilum. Hvort hann telji að það sé raunhæft að fjölskyldurnar komist í gegnum þann brimskafl þegar ná á tugum milljarða af íslenskum almenningi, íslenskum heimilum sem berjast í bökkum í dag. Hvort sú áætlun sem ríkisstjórnin er að vinna að í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé raunhæf. Hvort þetta sé ekki of knappur tími til þess að gera svona stóra hluti því að það eru gríðarlegir erfiðleikar, ekki bara í ríkisrekstrinum, (Forseti hringir.) eins og hæstv. ráðherrann talar um hér, (Forseti hringir.) heldur á mörgum heimilum í þessu samfélagi. Við þurfum að fara varlega þegar við leggjum stórauknar álögur á heimilin.