138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[11:21]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég stend einfaldlega við það sem ég segi að meginforsendur þessa fjárlagafrumvarps hafa legið fyrir síðan í vor. Það var þá strax sett í loftið að reyna ætti að ná jákvæðum frumjöfnuði á ríkissjóði á árinu 2011 og að stærsta skrefið í þeim efnum yrði tekið á árinu 2010. Það er vissulega mjög stórt sem hér er í ráðist að ná bata á frumjöfnuði sem nemur um 7% af vergri landsframleiðslu. Það má að sjálfsögðu deila um hvort þar er of geyst í hlutina farið. Eitt er þó alveg víst og það er það að hallarekstur af stærðargráðunni 180–200 milljarðar kr. kollsiglir ríkissjóði alveg ótrúlega hratt. Þess vegna hefur það mikla efnahagslega kosti að fara framhlaðið inn í þetta og ná umtalsverðum árangri strax.

Ég get hins vegar alveg tekið undir að takist okkur það má vel ræða og skoða hvort endilega þurfi síðan að ná þessu nákvæmlega í núll árið 2012, 2013 eða 2014. Kannski getum við þá einmitt látið eftir okkur að nota sveiflujöfnunargildi hins opinbera búskapar aðeins meira í framhaldinu ef við náum umtalsverðum árangri strax til þess að ná hallasöfnuninni og vaxtakostnaðinum niður. Það hefur ótvíræða kosti þegar við horfum á stöðuna bara eins og hún er. Ég tel að það klagi ekkert upp á ríkisstjórnina í sambandi við framkvæmd stöðugleikasáttmálans, við höfum fundað reglulega með þeim aðilum, útskýrt það sem verið er að vinna að, og verið er að reyna að aðstoða með öllum tiltækum ráðum við þann þátt málanna sem fyrst og fremst stendur á. Hvað er það? Það er fjármögnun. Það er allt frosið fast, við fáum hvergi lán nema við komumst út úr þeirri kreppu sem við erum í í þeim efnum. Þar hefur ekkert skort á að ríkisstjórnin reyni að aðstoða orkufyrirtækin og aðra þá aðila sem í þeim efnum eru.

Ef menn ætla ekki að leggja byrðarnar á almenning, ekki á orkufyrirtækin, eins og Sjálfstæðisflokkurinn talar hér gegn, og jafnvel ekki heldur skera niður, þá spyr ég hv. þingmann að lokum, (Gripið fram í.) og hann kemur örugglega inn á það í vandaðri ræðu hér á eftir: Hvernig á þá að gera þetta ef það má hvorki skera niður né hækka skatta?