138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög athyglisverð ræða. Hv. þingmaður hafði allt á hornum sér, bæði varðandi tekjuöflun og niðurskurð en minntist í raun og veru aldrei á stóra verkefnið, hvernig við ætlum að takast á við það að nú stefnir í 400 milljarða kr. halla á rekstri ríkissjóðs á tveimur árum. Það er mikið verkefni sem þarf að takast á við.

Síðan vil ég segja að hv. þingmaður hefur verið í einhverri annarri kosningabaráttu en ég, kannski hefur hann boðið sig fram á Grænlandi eða einhvers staðar annars staðar. (Gripið fram í.) Ég held að hv. þingmaður hljóti að muna eftir því fyrir hvað var ráðist á okkur vinstri græn og hver var megingagnrýnin á okkur, fyrir hvað urðum við fræg í kosningabaráttunni. Meðal annars var haft eftir varaformanninum að fram undan væri ekkert annað en lækka laun og hækka skatta. Það var reynt að draga upp sérstaka grýlu úr Vinstri grænum, að við ætluðum í svo harkalegar ráðstafanir einmitt í þessum efnum. (Forseti hringir.) Hafi einhver flokkur komið hreint til dyranna í þessum efnum í kosningabaráttunni þá vorum það við. (BJJ: Nei.) Ég dró aldrei dul á að erfiðar aðgerðir væru fram undan og óumflýjanlegar frekar en ég hef yfirleitt tamið mér að gera. Ég þarf ekki að biðjast afsökunar á því að hafa tekið þátt í loforðarugli eins og aðrir stjórnmálaflokkar gerðu 2003 þegar menn flæktu sig fasta í skattalækkunarloforðunum, gripu svo til þeirra illu heilli í þenslunni með skelfilegum efnahagslegum afleiðingum. (Gripið fram í.) En ég er alveg til í umræðu við hv. þingmann um þetta. Það voru aðrir þá sem notuðu meira þau orð sem hann nefndi hér, hvort sem það var velferðarbrú, skjaldborg eða eitthvað annað.

Í sambandi við meðferð vaxtamálanna á Icesave var ekkert dregið undan í því. Það er einfaldlega þannig að það er flókið mál hvernig á að fara með það og fjármálaráðuneytið, Fjársýslan og Ríkisendurskoðun eru að skoða það. Á að færa það sem vexti? Á að færa það sem áfallna skuldbindingu og gera þá ráð fyrir eignum á móti o.s.frv.? Sömuleiðis er flókið hvernig farið er með verðbótaþáttinn í skuldabréfi ríkisins til Seðlabankans. Vextirnir eru færðir yfir rekstrarreikning en verðbótaþátturinn kemur væntanlega í efnahagsreikninginn. (Forseti hringir.) Þessa þætti þarf einfaldlega að skoða því að það eru nánast ekki fordæmi fyrir því að taka hluti af þessu tagi inn í ríkisbókhaldið.