138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Margsinnis var rætt af hálfu þingmanna Vinstri grænna í aðdraganda síðustu kosninga um að ekki ætti að skerða kjör aldraðra og öryrkja, um þessa hópa ætti að slá skjaldborg — sem nú er orðin að tjaldborg.

Hæstv. ráðherra náði ekki á þeim stutta tíma sem hann hafði í fyrra andsvari að útlista hugmyndir sínar varðandi skattstofurnar í landinu og sýslumannsembættin. Á að leggja niður heilu skrifstofurnar eða hvað á að gera? Kemur til greina að þessum stofnunum verði að einhverju leyti stýrt af landsbyggðinni? Það er mikilvægt að fá að vita hverjar hugmyndir hæstv. ráðherra eru.

Hæstv. ráðherra segir að ég hafi ekki lagt neitt af mörkum annað en að gagnrýna niðurskurð (Fjmrh.: Og skattahækkanir.) og skattahækkanir. Ég nefndi fjölmargar aðgerðir sem eru til þess fallnar að stórauka tekjur hins opinbera. Ég nefndi að hæstv. umhverfisráðherra hefur seinkað að verulegu leyti áformum um atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum með mörg hundruð störfum, og hæstv. ríkisstjórn hefur líka seinkað viljayfirlýsingu gagnvart Norðurþingi og fyrirtækinu Alcoa.

Margar spurningar vakna um þessa orkuskatta, hvort með þeim séum við mögulega að fara inn á brautir sem munu hamla erlendri fjárfestingu. Við þurfum að auka erlenda fjárfestingu í samfélaginu. Ég gagnrýndi að menn skuli slá af 8,8 milljarða kr. samgönguframkvæmdir á næsta ári, sem væru mjög arðbær fjárfesting. Við mundum fjölga störfum verulega með slíkum framkvæmdum. En hvað gerist ef fólk hefur ekki störf? (Forseti hringir.) Það þiggur atvinnuleysisbætur. Við þurfum að horfa á heildarsamhengið og Framsóknarflokkurinn (Forseti hringir.) hefur margt fram að færa í þessum efnum, frú forseti.